Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

Styrktaraðilar, Liðsmenn Jerico

Allra Átta vefsíðufyrirtæki styrkir þessa vefsíðu. www.8.is

Leit.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.leit.is

Jómfrúin.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.jomfruin.is

IOGT styrkir Liðsmenn Jerico. www.iogt.is

DalPay styrkir Liðsmenn Jerico. www.dalpay.com

Grunnskólinn Þelamörk.
(áheitahlaup)

Starfsmannfélag Kaupþings.
(við Hlemm)

Jakob Einar Jakobsson.
(hjólaði hringveginn)

Merkjalist.
(www.merkjalist.is)

Bústaðarkirkja.
(www.kirkja.is)

Uppkominna þolenda

Sagan mín.

Ég ólst upp í litlu þorpi úti á landi á sjöunda áratugnum (fædd 1962). Mamma og ég bjuggum hjá afa og ömmu og amma sá að mestu um uppeldið. Pabba mínum kynntist ég ekki fyrr en ég var orðin stálpuð, samt bjó hann í þorpinu. Þetta var það fyrsta skrítna við mig fannst krökkunum í skólanum. Alveg frá upphafi átti ég ekki sjens í þessum skóla. Krökkunum fannst ég skrítin, enda uppalin hjá fullorðnu fólki og var hálfhrædd við aðra krakka.

Ég var lögð í einelti frá upphafi skólagöngu. Sérstaklega var það einn bekkjarbróðir minn sem sá um það og ég var dauðhrædd við hann. Hann fékk hina krakkana með sér að stríða mér og uppnefna alla daga. Yfirleitt var ég útilokuð frá hinum og mikið andlegt ofbeldi átti sér stað á skólalóðinni. Ég man að ég faldi mig í öllum frímínútum og þær snérust að mestu um að lifa af. Stundum var ég barin líka og togað í hárið á mér og ég var alltaf hrædd við strákana.

Stelpurnar voru líka vondar við mig og stóðu saman gegn mér. Man að leikfimitímarnir voru verstir. Ég fór að fá magaverk alla daga og höfuðverk en var alltaf send í skólann. Heima þorði ég ekki að segja frá og kennararnir fylgdust ekki með neinu í skólanum. Á sumrin voru sundnámskeið og þau voru hræðileg því ég var yfirleitt kaffærð. Ég var því mjög vatnshrædd og lengi að verða synd.

Mér fannst samt gaman að læra og átti auðvelt með það. Í tímum var ég nokkurn veginn örugg meðan kennarinn var inni því ég var róleg og stillt og uppáhald kennaranna. Reyndar var ég alltaf skíthrædd við að láta bera á mér inni í tímum því þá urðu frímínúturnar verri.

Þegar ég var komin um fermingu, fór ég að reyna að falla inn í hópinn og byrjaði að drekka og reykja til að komast inn. Ekki skánaði eineltið við það en ég fékk náðarsamlegast að vera með ef ég lék trúð fyrir krakkana. Það þýddi að þau máttu gera endalaust grín að mér. Um þetta leyti byrjaði þessi bekkjarbróðir minn að nauðga mér reglulega.

Hann hafði frá upphafi verið djöfull í mínu lífi og það hélt áfram kynferðislega. Mér fannst ég ljót og heimsk og ekki eiga annað skilið en að vera kynlífsþræll fyrir hann. Fljótlega fékk ég það orð á mér að vera lauslát og margir karlmenn í þorpinu fóru að nota sér það. Ég hef ekki tölu á hversu margir nýttu sér líkama minn þessi ár frá fermingu og upp úr. Ég man að ég fékk ógeð á sjálfri mér ef ég leit í spegil og málaði mig því eins og hóra alla daga.

Ég drakk sífellt meira og í 9. bekk (sem er 10. bekkur í dag) drakk ég flesta daga og var yfirleitt þunn í skólanum. Ég hætti að læra og lífið snérist um að finna áfengi fyrir næstu helgi og hljóta viðurkenningu hjá hinum krökkunum með því að haga mér illa í skólanum og láta jafnvel reka mig úr tímum. Ég leiddist líka inn í afbrot og stal, í litlum mæli þó.

Fullorðna fólkið í þessu þorpi hafði nákvæmlega sama álit á mér og krakkarnir, að ég væri vandræðaunglingur og lauslát með afbrigðum. Engum datt í hug af hverju þessi duglega skólastelpa sem ég þó var þrátt fyrir eineltið, breyttist í svona ungling. Bekkjarbróðir minn hélt áfram misnotkuninni og stundum gengu kvöldin út á að komast undan honum.

Ég fór að heiman í framhaldsskóla en hélt alltaf áfram að misþyrma sjálfri mér með þeim afleiðingum að aðrir gerðu það líka. Mér fannst ég ljót og allt ljótt við mig. Meira að segja voru skoðanir mínar rangar og því tók ég upp annarra skoðanir á ýmsum hlutum. Það má segja að ég hafi reglubundið kæft sjálfa mig niður.

Ég kom alltaf heim í þorpið á sumrin þó ég væri annars staðar yfir veturinn og því hafði bekkjarbróðir minn alltaf aðgang að mér. Mér fannst kvöl að fara heim því ég vissi að karlmenn í þorpinu töldu að sjálfsagt væri að sofa hjá mér, oft ekki með mínum vilja.

Ég var orðin leikin í að liggja og fara út úr líkamanum meðan þeir athöfnuðu sig en varð alltaf helst að vera drukkin á meðan. Kynlíf var frá upphafi ógeðslegt og mér fannst ég alltaf óhrein.

Þegar ég var tvítug eignaðist ég barn eftir nauðgun og breyttist mikið við það. Ég vildi vera barninu mínu góð móðir og það eina sem ég hugsaði um var að hún fengi aldrei að vita hvaða álit allir höfðu á mér í þorpinu. Þess vegna flutti ég til höfuðborgarinnar með hana þegar hún var 5 ára, alveg hinu megin á landið.

Ég byrjaði nýtt líf og skipti meira að segja um nafn, allt til að þurrka út ógeðið sem þetta þorp var orðið í mínum huga.

En það er aldrei hægt að flýja fortíðina og í dag hef ég verið þunglyndissjúklingur í 15 ár. Ég hef mörgum sinnum reynt sjálfsvíg og mörgum sinnum legið inni á geðdeild. Líf mitt hefur verið hreint helvíti á köflum. Ég hef reynt allt. Ég hef verið í mörg ár í viðtölum í Stígamótum og hjá milljón sálfræðingum, ég hef farið í meðferð og í gegnum 12 sporin tvisvar sinnum en í dag er ég öryrki vegna andlegs ástands og ekki vinnufær.

Þegar ég kem til heimahaganna sem ég geri sjaldan, líður mér alltaf eins illa. Ég fór þangað núna í sumar og stoppaði í tvo daga. Eftir það leið mér illa í margar vikur.

Ég held að eineltið sem ég varð fyrir í öll þessi ár hafi eyðilagt mig og kynferðislega misnotkunin líka. Mér finnst ég alltaf vera gölluð manneskja og ég held að ég eigi aldrei eftir að jafna mig. Samt held ég áfram að reyna og vona að núna fari mér að líða betur.

Ég skrifaði þessa sögu og sendi ykkur í von um að geta skrifað mig frá þessu öllu. Ég vona að einhver geti lesið þetta og samsamað við sig þannig að fólki finnist það ekki vera eitt í heiminum.

Saga Yuuki29

Mig langar til að deila minni sögu með ykkur. Ég tel að það hjálpi mér, og kannski öðrum, að minnka sársaukann og eftirköst eineltisins. Ég ólst upp á sveitabæ úti á landi og sótti skólann í þorpinu sem bærinn var staðsettur hjá.

Fyrsta árið í skólanum var svo sem allt í lagi þar sem ekki bar á mikilli stríðni þá. En eftir það fór allt snarversnandi og seig hratt á ógæfuhliðina, því ekki aðeins var mér strítt heldur varð móðir mín einnig fyrir barðinu á illmælgi og stríðni. Þannig var reynt að særa mig með því að draga mömmu og allt mitt nánasta umhverfi með í svaðið.

Allt sem ég gerði, sagði og var var einskis virði og mér var skipulega útskúfað frá öllum athöfnum utan skólans. Mér var hrint, sparkað í mig og ég kölluð öllum ljótum nöfnum sem til eru í orðaforða íslenskrar orðabókar. Allt þetta stóð yfir meira og minna óslitið alla mína skólatíð.

Það var meira að segja hringt í mömmu í vinnuna sína og hún trufluð með einhverjum lygum og illmælgi um mig og ég var aðeins barn og þetta var gert af börnum lítið eldri en ég sjálf var. Mamma kom heim stundum niðurbrotin úr sinni vinnu eftir svona símtöl. Á hverjum degi hófst martröðin í skólabílnum á leið í skólann þar sem var sparkað í sætið manns, kóngulær settar í hárið á manni og sagt að maður væri svo sóðalegur enda alinn upp í fjárhúsi, hlegið og flissað að manni, hurðinni skellt á mann þegar maður ætlaði að fara út úr bílnum og svo framvegis.

Þegar í skólann kom tók síðan við meiri stríðni þar sem var til dæmis sett drulla í leikfimifötin manns, maður uppnefndur og hæðst að manni og gefið illt auga hvar sem hægt var eða logið upp á mann klámsögum þó maður væri bara barn og hefði varla vit á því hvað kynlíf var einu sinni. Og þetta var ekki tveir eða þrír aðilar....nei þetta var allur skólinn...alveg frá neðsta bekk upp í efsta bekk.

Nýjum krökkum sem fluttu í plássið var sagt að þeir ættu að stríða mér annars hlytu þeir verra af. Og auðvitað þorðu þau ekki annað en að hlýða. Með þessu móti var komið algjörlega í veg fyrir að ég eignaðist nokkurn tímann vini eða bandamenn. Það var oft, oft reynt að tala við skólayfirvöld en þau ypptu bara öxlum og sögðust ekkert geta gert þetta myndi hætta af sjálfu sér.

Um 12 - 13 ára aldur var ég nánast hætt að þora að tjá mig og lokaði mig stöðugt meira og meira af í mínum eigin heimi sem innihélt stöðugt meira sjálfsásakanir og sjálfsvígshugsanir af svæsnasta tagi. Þegar ég var 12 ára var sársaukinn orðinn svo mikill því að ég hélt að allt þetta væri mér að kenna, að ég ákvað að reyna að fyrirfara mér með búrhníf frammi í þvottahúsi.

Samt gat ég það ekki þrátt fyrir allt...var of hrædd við að deyja og skelfd til næstum dauða við að lifa. Ég varð skotin í strák eins og gengur og gerist á þessum aldri sem var í mínum bekk en alla tíð dáðist ég aðeins að honum úr fjarlægð alltof hrædd um að vera hafnað einu sinni enn.

Þegar ég var 15 ára fór ég í burtu í heimavistarskóla og hélt að þá loksins myndi eineltinu létta og það yrði komið fram við mig eins og ég væri manneskja en ekki skepna. En sú von brást þar sem aðrir tóku við að leggja mig í einelti...aðrir sem þekktu mig og mína fortíð ekki neitt en létu sig hafa það að hundelta mig út um allt, hringja í herbergissímann, grýta herbergisgluggann að utan, öskra "skinka skinka!" á eftir mér, hlæja að mér ef ég birtist einhversstaðar (til dæmis í matsal), teikna skopmyndir af mér og hengja þær upp flennistórar út um allan skóla og svo framvegis.

Ég hélt að ég gæti eignast kannski vinkonu með því að deila herbergi með einhverjum en það fór á sama veg; ég var svo leiðinleg að herbergisfélaginn flutti út. Amk var það ástæðan sem var gefin. Maður er heldur ekkert ofurhress eftir 10 ára einelti..en það þurfti hún svo sem ekkert að vita um. Á þessum tíma flúði ég oft hágrátandi til húsvarðar heimavistarinnar sem þá var kona og bjargaði mér oft frá því að verða hreinlega snarbrjáluð með því að leyfa mér að passa börnin hennar stund og stund.

Þetta hafði líka áhrifa á námið og ég varð að endurtaka fyrsta bekk skólans af því að ég féll í einu fagi. Eftir tvo vetur af svo góðu sá ég sæng mína uppreidda og hætti í skólanum. Fór aftur heim á sveitabæinn minn. Afi og amma voru þá nýhætt að búa og lítið að gera þar miðað við það sem áður var.

Ég reyndi að fá vinnu í þorpinu en það var lítið fyrir manneskju á 18. ári að gera. Eina sem stóð til boða var fiskvinna og jafnvel hún var af skornum skammti þennan vetur sem ég ákvað að vera heima á sveitabænum. Dagarnir liðu því í algjöru tilbreytingarleysi og ég varð þunglyndari og þunglyndari þó að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá. Um vorið sótti ég um annan skóla sem ekki var heimavistarskóli en samt í sama bæ og fyrri skólinn og þá loksins fékk ég vinnu sem entist út sumarið í fiski.

Um haustið 1998 ákváðum við mamma svo báðar að flytja til þessa bæjar svo að við gætum þó deilt leigunni. Báðar vorum við dauðfegnar að losna undan prísundinni sem þetta þorp var orðið okkur. Það er ljótt að hugsa til heimabæjar síns með hatri en það geri ég samt svo sannarlega. Ég hef varla fengist til að koma þangað öll þessi 10 ár sem eru liðin síðan ég flutti alfarið til staðarins þar sem ég bý í dag. Kem þangað aðeins vegna ömmu minnar sem er ein orðin síðan afi dó árið 2006.

Haustið 1998 byrjaði ég í öðrum, og að mér fannst, betri skóla. Þar eignaðist ég í fyrsta sinn vini (sem ég hef þó varla samband við í dag) og mér fannst eins og það væri að birta til í lífi mínu. Auðvitað eignaðist ég líka falska vini af því að ég reyndi svo mikið að þóknast öllum og fólk gat valtað yfir mig eins og því sýndist.

Þar með talin ein "vinkona" sem laug og laug að mér hinu og þessu og fór svo að vera með manni sem var einna verstur við mig í grunnskóla. Eftir það vildi ég ekki hafa samband við hana en hún trúlofaðist manninum og eignaðist barn með honum. Þegar ég var um tvítugt leitaði ég í fyrsta sinn geðlæknis vegna óstöðvandi þunglyndis sem helltist yfir mig þegar ég loksins komst úr þeim aðstæðum sem ég var í og fór að gera mér grein fyrir hvaða áhrif þetta hafði haft á mig.

Ég lauk samt við skólann og útskrifaðist stúdent 2001 aðeins 2 árum á eftir áætlun. Ég píndi mig til að gera allt sem ég þurfti að gera...ég neitaði að gefast upp þó að mér liði svo illa að ég var við það að sligast. Aðeins mamma vissi af vanlíðan minni og að lokum leitaði ég mér hjálpar hjá lækni. Hann reyndist mér vel og gaf mér lyf og meðferð sem hjálpuðu mér upp úr versta öldudalnum. Tíminn leið og á þessum tíma leið mér mjög illa yfir því að eiga ekki kærasta eins og allar hinar stelpurnar og mér fannst ég miklu síðri og ljótari og leiðinlegri heldur en allar sem ég bar mig saman við.

Mér fannst ég einskis virði og ætti allt illt skilið og það gæti ekki verið strákur þarna úti sem vildi yfirleitt neitt með mig hafa. Þetta gerði mig ennþá þunglyndari aftur en svo eignaðist ég kærasta og fannst ég hafa himin höndum tekið. Skildi ekki hvernig hann gat viljað vera með MÉR...mér sem var svo ömurleg og hrikaleg. Það entist ekki lengi og við hættum nokkrum mánuðum síðar. Þetta var árið 2001.

Það tók mig dálítið langan tíma að sætta mig við það og sjálfstraustið fór langt niður fyrir allt frostmark. Árið 2002 kynnist ég síðan manni sem ég hélt að væri allt í lagi. Kynntumst gegnum netið og allt í lagi með það..hann kom að heimsækja mig seinna sama ár og allt virtist ætla að ganga vel.

Ég flutti til hans lands í tæpt ár...ég var dauðleið á Íslandi og langaði bara að flýja allt og alla. Ég hugsaði með mér að ég skyldi sko sýna þessu liði sem sagði að ég myndi aldrei giftast að ég gæti það sko alveg rétt eins og hver annar. Við trúlofuðum okkur fljótt og giftum okkur borgaralega árið 2004 hérna heima á Íslandi. Árið 2005 skiljum við svo og ég fer niður í stærsta öldudalinn sem ég hafði farið í til þessa.

Á þessum tíma var ég að klára háskólanám sem var mjög krefjandi og allt okkar samband höfðum við verið að berjast í bökkum bæði fjárhagslega og tilfinningalega. Það tók mjög á mig en honum virtist standa algjörlega á sama um það hvernig mér leið. Ekkert komst að nema tölvan hans og ég sat á hakanum.

Árið 2006 um sumarið fæ ég hringingu að heiman og mér sagt að afi minn sem ég ólst upp hjá sé látinn. Það var kvöldið fyrir útskriftina úr háskólanum. Eðlilega var ég ekki með hýrri há þann daginn en samt gat ég engum sagt hvernig mér leið nema einni einustu manneskju sem ég treysti úr háskólanum.

Ég gat ekki grátið nema þegar ég var ein og ákafar sjálfsvígshugsanir sóttu á mig þar sem mér fannst ég einskis virði og að ég ætti ekkert erindi inn í þennan heim og allir yfirgæfu mig bara þannig að þetta líf væri ekki til neins.

Í dag er ég hjá frábærum geðlækni sem vill allt fyrir mig gera og er á lyfi sem hjálpar mér mjög mikið. Allar sjálfsvígshugsanir hafa minnkað mikið en ég á langt í land með að treysta fólki og á eftir að vinna í sjálfri mér mikið meira ennþá.Ég er líka í frábærri vinnu með góðu fólki sem mér þykir mjög vænt um.

Ég held að það að setja sögu mína á blað hafi hjálpað mér að stíga eitt skref í því að öðlast frið fyrir þunglyndisdraugnum.

Saga Róberts


Það var í kjölfar fráfalls Lárusar og fjölmiðlaumfjöllunarinnar að ég fór mikið að hugsa til baka til þess eineltis sem ég lenti í á sínum tíma og fann að ég var ekki alveg búinn að vinna mig útúr því máli þó ég sé nú þrítugur.  Einhversstaðar fann ég kjark til þess að segja frá minni reynslu, eins opinskátt og ég gat, á formi vídeó-bloggs sem ég birti á bloggsíðu minni. 

Það hjálpaði mér mikið að koma þessu frá mér og rúsínan í pylsuendanum var sú að einn gerendanna sá vídeóið og setti sig í samband við mig.  Hann starfar nú sem grunnskólakennari og ákvað í kjölfarið að sýna nemendum sínum (öllum 7-10 bekkingum í skólanum hans) vídeóið og sagði krökkunum jafnframt að hann hefði verið einn gerendanna.  Þetta gerði hann á sérstökum Olweusar-degi og vakti þetta að hans sögn mikla lukku og skapaði mjög áhugaverðar umræður.  Meira að segja sendi hann mér bréf með kommentum frá krökkunum til mín.  Hann endurtók þetta síðar á foreldrafundi skömmu síðar.  Þessi atburðarrás var ótrúleg og hjálpaði okkur báðum mjög mikið og vonandi einhverjum fleirum.

Mér datt í hug að deila þessari sögu og vídeói með þér og ef þú telur þig geta nýtt þetta einhversstaðar þá hefur þú fullt leyfi mitt til að birta þetta t.d. á síðu Liðsmanna Jerico.

Hér er linkur á vídeóbloggið:  http://robertb.blog.is/blog/robertb/entry/599802/     og hér er frásögn af samskiptum mínum við bekkjarbróður minn í kjölfarið:  http://robertb.blog.is/blog/robertb/entry/654379/

miđvikudagur 19 desember 12 2018
Nýjustu fréttir
http://www.kolbrunbaldurs.is/ Á þessari síðu getur þú og...
Í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags 10. október...
Umboðsmaður barna sendi á mánudaginn, 21. mars 2011, bréf til allra...

Könnunn

Er eineltisáćtlun ţíns skóla ađgengi-og sýnileg?
  • Nei