Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

Styrktaraðilar, Liðsmenn Jerico

Allra Átta vefsíðufyrirtæki styrkir þessa vefsíðu. www.8.is

Leit.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.leit.is

Jómfrúin.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.jomfruin.is

IOGT styrkir Liðsmenn Jerico. www.iogt.is

DalPay styrkir Liðsmenn Jerico. www.dalpay.com

Grunnskólinn Þelamörk.
(áheitahlaup)

Starfsmannfélag Kaupþings.
(við Hlemm)

Jakob Einar Jakobsson.
(hjólaði hringveginn)

Merkjalist.
(www.merkjalist.is)

Bústaðarkirkja.
(www.kirkja.is)

Holl lesning

Predikun Eiríks Bj. Björgvinssonar bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði við skírnarmessu sonar síns Birnis Eiðars ,  í Fríkirkjunni Reykjvík sunnudaginn 5. október sl.

Ég þakka Eiríki fyrir að fá að birta þetta hér

Inngangur

Í 1. Korintubréfi segir svo um kærleikann;

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.

Kærleikurinn öfundar ekki.

Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.

Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,

hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.

Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.

Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Nýtt líf kviknar

Það er yndislegt þegar nýtt líf kviknar í móðurkviði. Eftirvæntingin sem fylgir í kjölfar þess að fá fréttir um að von sé á barni, er engu lík. Gleði og stolt hríslast um líkamann en einnig örlitlar áhyggjur - Gleði yfir því að eignast erfingja, stolt yfir því að ástin og hjónabandið beri svo ríkulegan ávöxt en áhyggjur yfir óvissunni um allt muni ganga vel. 

Við bestu aðstæður er meðgangan tími eftirvæntingar. Öll athygli beinist að hinum ófædda einstaklingi. Líkamlegt og andlegt atgervi móður tekur breytingum og ekki er laust við að breytinga gæti einnig hjá verðandi föður. Foreldrarnir verða uppteknir af því að allt sé tilbúið þegar nýi einstaklingurinn lítur dagsins ljós. Hreiðurgerðin er í algleymingi: Vaggan á sínum stað, bílstóllinn, skiptiborðið, bleyjurnar, snuðin, barnafötin... Það er svo mikil tilhlökkun í loftinu.

Fyrir utan veraldlegan aðbúnað miðast nú allur undirbúningur við sjálfa fæðinguna ­- Dagarnir eru taldir niður. Foreldrarnir fara á námskeið til að fræðast um allt sem snýr að meðgöngunni og fæðingu barnsins - Hvað síðan tekur við er seinni tíma spursmál.

Svo kemur þessi litli einstaklingur í heiminn og leggur hann að fótum sér - Lítið líf án leiðbeininga. Stoltir foreldrar taka við hamingjuóskum, auðmjúkir gagnvart þeirri blessun sem þeir hafa hlotið. Þetta undurmjúka og fullkomna barn er svo saklaust og svo umkomulaust að löngun gerir vart við sig til að vefja það inn í bómull, svo ekkert geti komið fyrir það.

Og nú fyrst hefst undirbúningur fyrir lífið sjálft. Allt snýst um að hlú að hinum nýja fjölskyldumeðlimi, enda ekki nema von ef tekið er mið af allri eftirvæntingunni.

Ábyrgðin

Það er þarna, strax frá fyrsta degi, sem nýbakaðir foreldrar hefja að þroska með sér áður óþekkta tilfinningu, ábyrgðartilfinninguna gagnvart öðrum einstaklingi, en ábyrgðin sem við foreldrar stöndum frammi fyrir verður seint ofmetin - Ábyrgð sem er fólgin í því að barnið þroskist eðlilega, njóti hlýju, verndar og leiðsagnar. Við viljum standa okkur í hinu mikilvæga hlutverki - Vera fær um að sýna sjálfstæði og takast á við hið margslungna verkefni af ást og umhyggju, þannig að við verðskuldum hlutverkið, séum traustsins verð.

Ábyrgðartilfinningu fylgir einnig ótti við að bregðast, en á móti kemur sú vissa að við erum ekki ein á báti. Ekkert er sjálfsagðara en að viða að sér þekkingu og leita sér aðstoðar. Við erum misvel í stakk búin, og um leið og við leitum eftir hjálp eða spyrjumst fyrir, kemur á óvart sá góði stuðningur sem okkur býðst, ýmist frá okkar nánustu, öðrum foreldrum eða öllu því vel menntaða og reynda fólki sem starfar í heilbrigðiskerfinu okkar - Fólki sem víkur ekki af vaktinni.

En af hverju þá þessar áhyggjur? Eru þær kannske sprottar af þeirri vitneskju að þegar við sleppum hendinni af afkvæminu, þá þarf það að takast á við lífið af sjálfsdáðum, byggt á þeim grunni sem við höfum lagt með uppeldinu?

Umhverfið og samhjálpin

En það erum ekki bara við þessir nánustu og þeir sem við kjósum að leita til, sem móta hinn nýfædda einstakling. Barnið hlýtur ákveðið upplag í vöggugjöf en síðar mótast sjálfsmynd þess af öllu umhverfinu.

Í afrísku máltæki segir að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Það er auðvelt að sjá slíka uppeldisstöð fyrir sér þar sem allir þorpsbúar flykkjast út úr strákofunum til að hjálpast að við hin daglegu störf, þeir eldri kenna þeim yngri sem síðan miðla sjálfir menningararfinum til komandi kynslóða - Arfi sem er ríkur af virkum siðferðislegum gildum og markmiðum.

Og eftir því sem umhverfið er heilbrigðara, því meiri líkur eru á að einstaklingurinn verði það líka - Hann verði sjálfstæður, þekki muninn á réttu og röngu, sé viljugur að taka þátt í því jákvæða og uppbyggilega sem lífið hefur upp á að bjóða, beri virðingu fyrir öðrum og takist á við mótlæti og meðbyr á sínum forsendum, án þess að bugast eða ofmetnast. Líkt og í afríska þorpinu hafa hinir félagslegu þættir umhverfisins haft áhrif á lífsleikni okkar og átt þátt í að móta okkur hvert og eitt með sínum hætti. Við erum það sem við hugsum og gerum, m.a. vegna þess jarðvegs sem við erum sprottin úr og vegna þeirra samfélagsáhrifa sem við verðum fyrir strax á uppvaxtarárunum og þá ekki síst áhrifa frá jafnöldrum.

Hætturnar og eineltið

Er þá nokkur ástæða til að hafa áhyggjur? Það er freistandi að ætla að í kristilegu umhverfi þar sem samfélagsábyrgðin er rík í umræðunni og umhyggja og umburðarlyndi er í hávegum haft, sé allt eins og best verður á kosið. En víða leynast hætturnar. Eins og lífið getur verið yndislegt og gjöfult, þá er það sífelld prófraun. Lífið leggur upp með nýtt verkefni á hverjum degi - Verkefni sem við þurfum að takast á við. Eitt þeirra er að kenna börnum okkar að mæta hindrunum og forðast hættur. Börnin ganga í skólann og við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir hvað getur orðið á vegi þeirra, né hvaða lykkju þau kunna sjálf að leggja á leið sína. Við treystum því í sakleysi okkar að þau búi í nokkuð vernduðu umhverfi og að heilsteypt sjálfsmynd, sú sem við höfum leitast við að hjálpa þeim að öðlast, fleyti þeim áfram yfir stærstu árvötnin.

Hætturnar í umhverfi barna okkar eru margslugnar, fjölbreyttar og misaugljósar. Ein er sú ógn sem samfélaginu stafar hætta af dag hvern, en það er eineltið. Einelti getur birst í svo óteljandi myndum og á ólíklegustu stöðum. Ég tel að við foreldrar séum ekki nægilega meðvituð um eðli eineltis, hversu nálægt börnunum okkar það er, hversu algengt, hversu falið og hversu alvarlegt það getur orðið. Hér er ég ekki að tala um saklausa stríðni heldur grimmilegt ofbeldi, líkamlegt og andlegt. Fjölmargir einstaklingar hafa ekki borið þess bætur að hafa verið lagðir í áralangt einelti t.d. af skólafélögum sínum, á þeim árum sem mótun sjálfsmyndar var hvað mest og viðkvæmust. Það er því ekki vanþörf á að spyrja hvernig okkar kristilega samfélag virkar í reynd, þegar þegnar þess líta í aðra átt, enginn telur sig þurfa að axla ábyrgð, viðurkenna ofbeldið og takast á við það. Við hljótum öll að bera ábyrgð til afskipta. Það er í verkahring okkar fullorðna fólksins að leiðbeina börnunum, kenna þeim að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og gera þeim grein fyrir afleiðingum gjörða sinna. Þetta gerum við fyrst og fremst með því að vera sjálf þær kærleiksríku fyrirmyndir sem við viljum að börnin líti upp til. Það er á okkar allra ábyrgð að byggja upp jákvæðni og samkennd. Það er ekki einungis hlutverk opinberra aðila eða einhverra annarra. Þetta er samfélagslegt verkefni okkar allra.

Í þann mund sem ég og konan mín eignuðumst okkar litla dreng í sumar, misstu vinir okkar drenginn sinn. Ungur maður í blóma lífsins, Lárus Stefán Þráinsson, tók þá ákvörðun að binda endi á líf sitt. Þetta gerði hann vegna þess að lífið var orðið honum of þungbært ­- Vegna þess að hann hafði orðið fyrir slæmu einelti sem barn.

Maður spyr sig hvernig lífið geti reynst ungum dreng svo óbilgjarnt. Lárus hafði ekkert til saka unnið annað en að skera sig aðeins úr fjöldanum. Hann var elskaður af foreldrum sínum sem leiðbeindu honum eftir fremsta megni. Það var skólaumhverfið sem brást - Skólafélagarnir brutu hann markvisst niður. Þeir voru þess valdandi að sjálfsmynd hans beið alvarlega hnekki, svo alvarlega að hann náði sér aldrei á strik og ákvað að lokum að kveðja þennan heim. Um leið brást allt umhverfið og samfélagið í heild.

Fyrir tilstuðlan fjölmiðla hefur mál Lárusar vakið þjóðarathygli, nú eftir fráhvarf hans. Fyrir um viku síðan, birtist svo í Morgunblaðinu opnugrein þar sem annar ungur maður segir opinskátt frá þjáningu sinni í kjölfar áralangrar misþyrmingar eineltis. Af greininni má ráða að ekki aðeins hann sem þolandi, heldur einnig gerendurnir, hafi verið í stórfelldri hættu vegna hugsanlegra afleiðinga þeirra skemmda sem niðurbrotið hafði unnið á sálarlífi hans.

Í greininni er einnig vitnað í Hugo Þórisson sálfræðing sem segist óttast að víða viðgangist mikið einelti sem aldrei nái upp á yfirborðið fyrir þær sakir að þolendur þori ekki að segja frá, af hræðslu við meira ofbeldi - Þeir hafi löngu glatað trú sinni á hjálpina. M.a af þessum ástæðum er svo mikilvægt að börn geti talað við foreldra sína og átt trúnað þeirra.

Þakkir

Þegar ég kom að máli við séra Hjört Magna um að skíra litla drenginn okkar hjóna og bar fram þá ósk að athöfnin - þessi gleðiathöfn í okkar fjölskyldu - yrði jafnframt helguð minningunni um Lárus heitinn, þá tók séra Hjörtur mér afar vel. Eftir stutt spjall stakk hann upp á því að ég tæki sjálfur að mér predikunina. Ég verð þér séra Hjörtur Magni ævinlega þakklátur fyrir þetta tækifæri. Þú, sem þekktir ekkert til mín, sýndir mér það traust að nota kirkjuna þína - kirkjuna okkar, í þeim tilgangi að opna hjarta mitt í tilefni af inngöngu sonar míns í kirkjusamfélagið. Hafðu innilegar þakkir fyrir traustið.

Eineltismál hafa löngum verið mér  hugleikin og tilgangur minn nú aðeins sá að vekja sjálfan mig og vonandi ykkur líka til umhugsunar um þá ábyrgð sem við berum öll saman í að leiða ómótaða einstaklinga, eins og litla barnið mitt, í gegnum völundarhús lífsins. Ég mun leitast við að gangast við þeirri ábyrgð gagnvart mínum sonum og ég mun einnig bregðast við, verði ég þess áskynja að samborgarar mínir séu lagðir í einelti. Ég vil leggja mitt að mörkum svo börnin mín og annarra, sem enn eiga eftir að ganga í gegnum sín mótunarár, fái tækifæri til að gera það í jákvæðu umhverfi - Í umhverfi þar sem þau eru velkomin, eru virt fyrir sérstöðu sína, skoðanir og viðhorf, og fyrir það sem þau eru eða vilja verða.

Orð eru til alls fyrst. Það skiptir miklu máli að geta gefið af sjálfum sér og kunna að þiggja frá öðrum.

Lokaorð

Mig langar að vekja athygli á því hér að foreldrar og vinir Lárusar hafa stofnað sjóð í minningu hans til að styðja við verkefni gegn einelti en reikningur hefur verið opnaður í Kaupþingbanka á Egilsstöðum þar sem tekið er við frjálsum framlögum.

Foreldrar, frænkur, frændur, afar, ömmur, vinir, kunningjar, bræður og systur - Þið öll sem hafið hlítt á mig í dag:  Við þurfum að vera meðvituð um hlutverk okkar sem ábyrgir, elskulegir og traustir einstaklingar. Gleymum ekki gleðinni, trúnni, voninni og kærleikanum. Komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur og - það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Takk fyrir.

laugardagur 17 nóvember 11 2018
Nýjustu fréttir
http://www.kolbrunbaldurs.is/ Á þessari síðu getur þú og...
Í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags 10. október...
Umboðsmaður barna sendi á mánudaginn, 21. mars 2011, bréf til allra...

Könnunn

Er eineltisáćtlun ţíns skóla ađgengi-og sýnileg?
  • Nei