Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

Styrktaraðilar, Liðsmenn Jerico

Allra Átta vefsíðufyrirtæki styrkir þessa vefsíðu. www.8.is

Leit.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.leit.is

Jómfrúin.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.jomfruin.is

IOGT styrkir Liðsmenn Jerico. www.iogt.is

DalPay styrkir Liðsmenn Jerico. www.dalpay.com

Grunnskólinn Þelamörk.
(áheitahlaup)

Starfsmannfélag Kaupþings.
(við Hlemm)

Jakob Einar Jakobsson.
(hjólaði hringveginn)

Merkjalist.
(www.merkjalist.is)

Bústaðarkirkja.
(www.kirkja.is)

Þögnin er óvinur

Texti: Hrund Þórsdóttir

Myndir:Kristinn Magnússon

Förðun og stílisering: Haffi Haff

 

Þögnin er óvinur!

 

Ingibjörg Helga Baldursdóttir varð nú í sumar fyrir því hræðilega áfalli að missa barn. Sonur hennar, Lárus Stefán Þráinsson, tók líf sitt aðeins 21 árs gamall eftir áralanga baráttu við þunglyndi í kjölfar alvarlegs eineltis sem hann varð fyrir í grunnskóla. Ingibjörg heldur nafni sonar síns á lofti með því að berjast gegn einelti og hefur stofnað til kraftmikils átaks í þeim tilgangi.

 

 

 

Í sumar var ég stödd í Þórsmörk með manninum mínum, Þórhalli Birgissyni, ættingjum og vinum í löngu skipulagðri ferð. Laugardaginn 21. júní vaknaði ég fyrst og sat úti með kaffibolla að njóta umhverfisins og veðursins. Það var sólskin og stilla. Ég hugsaði til strákanna minna og þess að ég hafði ekkert heyrt í Lárusi daginn áður, bara á fimmtudeginum. Við fórum í göngutúr og vorum rétt komin til baka þegar síminn hringdi. Ég var viss um að það væri áríðandi og heyrði strax á Þráni, fyrrverandi manni mínum og föður Lárusar, að eitthvað skelfilegt hafði gerst,“ segir Ingibjörg og gerir hlé á máli sínu. „Hann sagði mér að Lárus væri dáinn. Ég hváði bara. Hann endurtók það en allan tímann á meðan ég talaði við hann hugsaði ég bara: Taktu þetta til baka, taktu þetta til baka ... Eina hugsun mín var að ég yrði að komast til Lárusar, taka hann í fangið, hugga hann og segja honum hvað mér þætti vænt um hann. Það kvaldi mig mest að vita hvað honum hafði liðið illa.“

 

 

Bjartari tímar virtust fram undan

Ingibjörg fékk að sjá Lárus. „Þar til ég sá hann sjálf vonaði ég að þetta væri einhver annar, þetta gæti ekki verið hann. Ég fékk að fara ein inn til hans og eins skelfilegt og þetta var þá kom friður yfir mig eftir dálitla stund hjá honum. Sá friður fylgdi mér í nokkurn tíma.“

Lárus var mjög þunglyndur en vikurnar fyrir andlát hans hafði hann sýnt breytta hegðun og líðan. „Hann var kominn undir læknishendur, tók lyf og ég var sannfærð um að nú væru bjartari tímar fram undan hjá honum. Þegar þunglyndislyf fara að virka og fólki fer að líða betur, þá kemur hins vegar oft dýfa niður á við. Á þeim tímapunkti grípur fólk oft til örþrifaráða þar sem það vill ekki lenda aftur í ömurleikanum sem fylgir þunglyndinu. Þetta vissi ég hins vegar ekki fyrr en eftir fyrri sjálfsvígstilraun hans tveimur mánuðum áður. Þá var hann á bráðamóttökunni yfir nótt. Ég var ráðþrota og þegar ég spurði lækninn hvað ég ætti að gera var hann eitt spurningarmerki. Eftir spjall við geðlækni var ákveðið að senda Lárus heim en það fannst mér óráðlegt enda var hann fárveikur. Þegar manneskja kemur inn eftir sjálfsvígstilraun á auðvitað að leggja hana inn. Hún er fárveik og á ekki að vera spurð hvort hún vilji frekari aðstoð. Ég hélt að ekkert gæti verið erfiðara en augnablikið þegar ég sótti hann á neyðarmóttökuna. Hann sat niðurbrotinn fyrir utan og beið mín, fullur af skömm yfir að hafa gert þetta. Ég faðmaði hann og hann bað mig fyrirgefningar,“ segir Ingibjörg alvarleg í bragði. Hún á augljóslega erfitt með að segja frá atburðarásinni enda er stutt síðan áfallið reið yfir. Hún er þó yfirveguð og skipulögð í frásögn sinni enda er henni mikið í mun að þessi hræðilega reynsla verði til einhvers góðs. Hún álítur þögnina óvin. „Eftir þetta tókum við sameiginlega ákvörðun um að Lárus hætti í vinnunni sinni og kúplaði sig út úr því umhverfi sem hann var í. Okkur fannst jákvætt að hann var til í að taka af skarið og breyta til. Hann skráði sig líka í Ármúlaskóla og síðasta símtal okkar snerist um hvað hann hlakkaði til að byrja í skólanum.“

Lárus var á þessum tíma nýkominn úr ferð til Ítalíu með föður sínum þar sem hann skemmti sér vel og sýndi merki um bætta líðan. Hann hafði líka kynnst stúlku, fyrstu ástinni sinni. Ingibjörg batt vonir við það samband en það gekk ekki upp og það tók Lárus nærri sér. Kvöldið áður en hann ákvað að taka eigið líf setti hann færslu inn á netsíðuna Huga.is þar sem hann óskaði eftir hjálp. Lárus var lesblindur og netverjar létu hann heyra það vegna stafsetningarvillna í færslunni í stað þess að bregðast vel við beiðni hans um ráðleggingar og hjálp. Um klukkan tvö um nóttina hitti Lárus bróður sinn, Kristján, sem er fjórum árum yngri en Lárus og vini hans og sáu þeir ekkert athugavert við hegðun Lárusar. Um morguninn var hann horfinn. „Þegar hann fannst var ekkert hægt að gera. Lárus drakk ekki nema einn og einn bjór, var nýbyrjaður að reykja og neytti engra fíkniefna. Ég var alltaf þakklát fyrir að ég vissi hvar hann var því ég gerði mér grein fyrir að hann var í áhættuhópi. Ef hann hefði eignast vini sem hefðu verið í rugli hefði hann líklega farið þá leið sjálfur. En hann var einangraður, fyrst og fremst vegna lélegrar sjálfsmyndar eftir einelti sem hann varð fyrir í 5.-7. bekk.“

 

Eineltið hræðilega falið

Lárus var glaðlynt, skapandi og uppátækjasamt barn. „Hann var einlægur og hlýr, alltaf brosandi og brosið fallega náði til augnanna,“ segir Ingibjörg. „Eftir að eineltið hófst reyndi ég allt til að láta hann eignast vini en ekkert gekk. Þetta hófst þegar við fluttum til Hafnarfjarðar og hann fór í Öldutúnsskóla. Hann kom nýr inn í bekk sem var mjög erfiður og einelti þreifst í. Gerendurnir komust upp með það svo hann var strax tekinn fyrir. Það eitt að við mættum í sparifötum á skólasetninguna nægði til að gert var grín að honum. Það var talað niðrandi til hans, hann fékk aldrei að vera með, hlutirnir hans voru eyðilagðir og hann átti hvergi öruggan stað nema heima. Það hryllilega við eineltið er hvað það er falið og þegar kennarar fá vitneskju um slíkt verður að bregðast við. Það þýðir ekkert að þegja og vona bara að hlutirnir lagist. Það eykur á vandann,“ segir Ingibjörg ákveðið. Umsjónarkennari Lárusar í 5. bekk gerði sér ekki grein fyrir ástandinu og sagði henni að Lárus samlagaðist hópnum vel. Ingibjörg fylgdist þó með og sá að hann stóð einn í frímínútum og beið þess að hringt væri inn. Kennarinn lofaði að fylgjast betur með og kom eitt sinn að krakkaskara að tala illa til Lárusar þar sem hann lá grátandi fram á borðið sitt. „Hún ræddi alvarlega við börnin en ekkert breyttist. Í 6. bekk kom nýr kennari og við funduðum bæði með krökkunum og foreldrunum. Ég reyndi að fá þetta fólk, gerendurna, í lið með mér og bað um hjálp við að passa Lárus en það skipti þau engu máli. Í þessum bekk voru margir einstaklingar sem greinilega áttu við erfiðleika að stríða og þetta fékk áfram að viðgangast. Við reyndum allt en Lárus varð sífellt einangraðri. Í 7. bekk var orðið augljóst að það þyrfti að taka hann úr bekknum. Við ræddum við skólastjóra í nálægu hverfi en hann treysti sér ekki til að taka við Lárusi því hann var hræddur um að eineltið fylgdi honum þangað. Mér var bent á að Tjarnarskóli gæti verið góður kostur og þegar ég hitti skólastjóra Lárusar til að taka hann úr skólanum kom í ljós að hann vissi nær ekkert um þetta mál. Það hafði verið ótrúlegur feluleikur í gangi; afneitun og afskiptaleysi og enginn í þessum skóla axlaði ábyrgð. Það er auðvitað ekki heil brú í að barnið manns gangi í skóla þar sem ástandið er slíkt að maður þurfi að kaupa fyrir það sérfræðiþjónustu svo það geti lifað af skólagönguna!“

Ingibjörg segir að í dag eigi eineltisáætlun skóla að vera sýnileg á heimasíðum og í skólabyggingum en að svo sé ekki alltaf. „Ef foreldrar fá þau skilaboð að ekkert sé að, telja þeir sig mikla hlutina fyrir sér en ef minnsti grunur leikur á að einelti eigi sér stað verður að skoða það strax. Ef eitt barn er lagt í einelti eru miklar líkur á að gerendurnir taki fleiri fyrir. Foreldrar eineltisbarna þurfa að finna hverjir aðra og vinna saman að því að fá hlutina framkvæmda sem fyrst hjá skólastjórnendum. Afleiðingar eineltis eru skelfilegar og marka einstaklinga fyrir lífstíð. Það þarf að auka sýnileika og umræðu; brjóta niður múra þagnarinnar því einstaklingur sem er lagður í einelti lokar sig af. Hann skammast sín, finnst þetta niðurlægjandi og þunglyndi tekur við. Viðkomandi heldur að eitthvað sé bogið við sig en það er svo mikill misskilningur. Það er ekkert að þolandanum og hver sem er getur lent í einelti, það spyr hvorki um stétt né stöðu. Einelti er þjóðfélagslegt mein og á bak við hvert eineltisbarn er heil fjölskylda sem þjáist,“ segir Ingibjörg. „Lárus sagði okkur ekki frá því sem gekk á. Hann skammaðist sín fyrir framkomu hinna barnanna gagnvart honum og vildi örugglega hlífa okkur við áhyggjum. Hann byggði um sig múr en þegar leið á þetta tímabil gerði hann uppreisn. Þessi ljúflingur gerði uppreisn en hún átti sér stað á heimilinu því hann gat ekki gert hana annars staðar. Hann fór að sýna mótþróa, vildi ekki lengur fara út og leita sér að félagsskap, hætti að vilja læra heima, hætti að vilja fara í skólann og skammaðist sín fyrir sérkennslu sem hann fékk. Það var því greinilega gert grín að henni líka.“

 

Vinnur í fyrirgefningunni

Lárusi leið betur í Tjarnarskóla. Auk þess að vera lesblindur var hann ofvirkur en greind hans var langt yfir meðallagi. Hann blómstraði í verklegum fögum en átti erfitt með þau bóklegu svo gallinn við Tjarnarskóla var að þar voru eingöngu kennd bókleg fög. „Hann átti sína góðu tíma en datt þess á milli niður í þunglyndi. Í Tjarnarskóla, öfugt við Öldutúnsskóla, var honum sýndur skilningur og umburðarlyndi og hann réði sér ekki fyrir kæti yfir að vera kominn í krakkahóp þar sem hann mátti vera með,“ segir Ingibjörg. Foreldrar nokkurra stúlkna úr bekk Lárusar hafa haft samband við hana og eru miður sín yfir hvernig ástandið var en engir gerendanna í eineltinu gegn Lárusi hafa haft samband eftir að Lárus tók líf sitt. Hún veit því ekki hvernig þeim líður eða hvort þeir gera sér grein fyrir sínum þætti í hvernig fór. „Ég er að vinna í fyrirgefningunni og ber engan kala til þessa fólks. Þetta er liðið og þessu verður ekki breytt. Það sem við getum breytt í dag er það sem kemur í framhaldinu. Við getum komið í veg fyrir að þetta komi fyrir fleiri einstaklinga, stöðvað þennan hrylling. Ég veit ekki hvað ég sagði oft við Lárus þegar hann grét og var sem beygðastur „Elsku drengurinn minn. Það koma betri tímar og sjáðu bara hvað þú átt eftir að geta hjálpað mörgum með þinni reynslu. Þegar þú verður fullorðinn maður munt þú geta hjálpað börnum sem verða í þessum sporum.“ Ég huggaði hann með því að það væri einhver tilgangur með því sem hann var að ganga í gegnum. Og það komu góðir dagar inn á milli því við létum þá koma og gerðum ýmislegt sem honum þótti skemmtilegt.“

Ingibjörg hefur einbeitt sér að því að láta dauða Lárusar og þessa ömurlegu lífsreynslu ekki verða til einskis. „Þetta er búið að vera skelfilegt ... þetta er skelfilegt. En frá því að við foreldrar hans komum saman með presti að kvöldi 21. júní síðastliðins til að ræða framhaldið, höfum við verið ákveðin í að opna umræðuna um einelti og afleiðingar þess. Við ákváðum strax að við ætluðum ekki að þegja þetta í hel, afþökkuðum blóm og kransa en bentum þeim sem vildu minnast Lárusar á að leggja inn í minningarsjóð í hans nafni sem notaður yrði til eineltisforvarna. Þessi sjóður varð mun stærri en ég hafði þorað að vona og stækkar enn. Ég er búin að stofna samtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda sem heita Liðsmenn Jerico, senda út ákall um hjálp, fá til liðs við okkur ýmsa fagaðila og stofnanir og saman ætlum við að standa að þjóðarátaki gegn einelti! Ég hef safnað um 700 sögum af einelti og fleiri þúsund manns hafa haft samband við mig, svarað ákallinu. Fólk er að gera sér betur grein fyrir hversu alvarlegt einelti er,“ segir Ingibjörg. Jerico er nafn sem Lárus tók sér og skrifaði hann t.d. undir því kvöldið örlagaríka á Huga.is. „Við ætlum að opna heimasíðu, www.jerico.is, sem á að verða gagnagrunnur og upplýsingaveita. Þar verða eineltisáætlanir skóla og ýmsar upplýsingar og ábendingar um hvar má leita hjálpar o.s.frv. Svo er ég að bíða eftir svörum varðandi húsnæði sem við förum líklega í með starfsemina. Við viljum að fólk geti leitað til okkar og fengið aðstoð þegar eineltismál koma upp. Samtökin verða rekin á styrkjum og nú erum við að fjármagna auglýsingagerð.“ Ingibjörg er kraftmikil manneskja sem lætur ekki sitja við orðin tóm. Þegar henni fannst skólakerfið hafa brugðist Lárusi á sínum tíma skellti hún sér í kennaranám og í dag starfar hún í athvarfi, Björginni, í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði en þangað koma börn úr skólanum sem eiga erfitt á einn eða annan hátt. „Við erum að byggja þetta upp og mörg börn þurfa á þessu að halda. Ég fór í þetta nám vegna þess að ég ætlaði að gera það sem í mínu valdi stæði til að hjálpa börnum eins og Lárusi.“

 

„Engu að tapa ... allt að vinna!“

Ingibjörg er sannfærð um að Lárus hjálpar henni í baráttunni. „Lárus er með mér í þessu, ég er sannfærð um það. Hann er mín vinstri hönd og Liðsmenn Jerico og allur englaskarinn hægri,“ segir hún brosandi. „Ég hef alltaf verið trúuð og í seinni tíð er ég víðsýnni og opnari. Maður er alltaf að læra. Í jógakennaranámi kynntist ég t.d. hugleiðslu og það á vel við mig til að róa hugann. Ég hef alltaf verið orkumikil og það hefur held ég orðið mér til lífs hvað ég er lífsglöð því það hefði verið miklu auðveldara að leggjast bara í kör í þunglyndi, sjálfsvorkunn og reiði. Það er bara ekki minn stíll, það er bara ekki ég. Ég hef engu að tapa, allt að vinna.“

Aðspurð hvernig Kristjáni, yngri bróður Lárusar, gangi að vinna úr hinni skelfilegu lífsreynslu segir hún hann taka lítil skref í rétta átt. „Hann hefur átt óskaplega erfitt en er allur að koma til. Hann þarf bara tíma og það þarf að hlúa að honum eins og allri fjölskyldunni. Hann mun spjara sig,“ segir hún hlýlega. Ingibjörg segir að lokum að hægt sé að lifa af áföll eins og dynji á svo mörgum í dag. „Þetta er erfitt en það birtir til og fólk verður að reyna að bjarga sér, trúa að það komi betri tímar og þakka fyrir það sem það á og hefur. Ekki gefast upp.“

 

 

Reikningsnúmerið hjá minningarsjóði Lárusar er 0305-13-303030 og kennitalan er 150462-7549. Þeir sem hafa áhuga á að starfa með liðsmönnum Jerico er velkomið að senda póst til Ingibjargar á netfangið ingabaldurs@gmail.com. Á vefsíðunni ingabaldurs.blog.is skrifar Ingibjörg um átak gegn einelti og fleiri mál. Hún vill koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa stutt hana í því sem hún er að gera með einum eða öðrum hætti. „Þetta eru gullmolar og óeigingjarnara fólk er erfitt að finna,“ segir hún.

miđvikudagur 19 desember 12 2018
Nýjustu fréttir
http://www.kolbrunbaldurs.is/ Á þessari síðu getur þú og...
Í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags 10. október...
Umboðsmaður barna sendi á mánudaginn, 21. mars 2011, bréf til allra...

Könnunn

Er eineltisáćtlun ţíns skóla ađgengi-og sýnileg?
  • Nei