Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

Styrktaraðilar, Liðsmenn Jerico

Allra Átta vefsíðufyrirtæki styrkir þessa vefsíðu. www.8.is

Leit.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.leit.is

Jómfrúin.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.jomfruin.is

IOGT styrkir Liðsmenn Jerico. www.iogt.is

DalPay styrkir Liðsmenn Jerico. www.dalpay.com

Grunnskólinn Þelamörk.
(áheitahlaup)

Starfsmannfélag Kaupþings.
(við Hlemm)

Jakob Einar Jakobsson.
(hjólaði hringveginn)

Merkjalist.
(www.merkjalist.is)

Bústaðarkirkja.
(www.kirkja.is)

Skóli og barn.

Sonur minn svipti sig lífi, brotinn eftir áralangar misþyrmingar eineltis. Hann var aðeins tuttugu og eins árs gamall. Tilhugsunin ein, um að honum hafi liðið svo illa að hann taldi sig ekki eiga önnur úrræði, er mér óbærileg. Það var eins og ég upplifði dauða tilfinninga minna. Ég tapaði öllum áttum, allri gleði og öllum áhuga og vilja til lífsins. Í fyrsta skiptið á ævi minni fann ég fyrir algeru kjarkleysi. Ég miklaði allt fyrir mér; það sem áður var lítið mál fannst mér orðið óyfirstíganlegt. Það var eins og öll mín barátta við kerfið í gengum árin hefði verið til einskis. Staða mín varð í einni svipan algjörlega tilgangslaus.

Ég vissi alla tíð að barátta sonar míns var grunnurinn að þeirri vinnu sem ég hef lagt á mig í þágu samfélagslegra verkefna. Hún var orsök þess að ég fór að vinna að skólamálum, orsök þess að ég fór í framboð, settist í bæjarstjórn og varð formaður fræðslumála í okkar sveitafélagi. Hún fékk mig til að berjast gegn samræmdu prófunum og var ástæða þess að ég var fenginn til þess að stýra skólamálum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og skipaður í stjórn skóla- og fræðslumála flokksins. Hans barátta var í raun það sem dreif mig áfram. Nú hef ég beðið ósigur. Ósigur sem var svo miklu stærri en allir aðrir ósigrar. Allir aðrir erfileikar eru hégómlegir í samanburðinum. Sársaukinn er ómælanlegur og reyni ég stundum að skilja hann eða skilgreina, til að botna eitthvað í líðan minni. Alls kyns spurningar kvikna. Hvort vegur þyngra sorg mín yfir örlögum drengsins eða sorgin yfir sársauka okkar sem eftir lifa og hafa misst svo mikið?

Er söknuðurinn fyrst og fremst eigingirni þeirra sem eftir lifa; bara sjálfhverfur sársauki sem kvelur okkur vegna þess að við njótum drengsins ekki lengur? Er málið allt þá orðið meira um okkur en hann? Mér finnst ég ekki mega hugsa svona. Fyrir þennan atburð hugleiddi ég oft hvað ég væri heppinn og hvað ég mætti vera þakklátur fyrir allt sem ég hefði. Það verður bið á því að ég hugsi þannig aftur. Ég hef verið sviptur varanlega því sem er hverjum manni kærast í lífinu.

Einelti

Sonur minn er langt frá því að vera sá eini sem svipt hefur sig lífi eftir misþyrmingar eineltis og það er algerlega óþolandi að við skulum þurfa að upplifa slíka uppgjöf hjá ungu fólki á samfélaginu vegna áralangra byrða eineltis og félagslegs vanmáttar eða einangrunar. Fleiri þolendur eineltis kjósa þó að deyfa sársauka sinn í vímuefnum og eru því einstaklega auðveld bráð fíkniefna. Að mínu mati finnst mér því miður skorta skilning á því í samfélaginu að vímuefnanotkun getur verið afleiðing annarra vandamála en ekki alltaf orsök. Ég tel að þegar við förum að nálgast vímuefnavandinn meira með tilliti þess að hann geti verið afleiðing samfélagsvanda eru meiri líkur á að við áttum okkur betur á orsökunum þess að börnin okkar lenda í klóm vímuefna.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þolendur eineltis og þeirrar útskúfunar sem því fylgir bera ekki vandamál sín á borð. Þetta er þeirra skömm og þeirra leyndamál sem þeir tala ekki um. Þeir trúa því oftast sjálfir að þeir séu vonlausir og þeim finnst þeir hafa brugðist, brugðist foreldrum og fjölskyldu sinni með því að vera svona. Öll börn þrá að foreldrar þeirra séu stoltir af þeim og hrósi þeim því bregst barnið við með afneitun þegar grunur vaknar um einelti. Því síður vill barnið að brugðist verði við vandamálinu enda vill það ekki að vonleysi þess fái meiri athygli en þegar er orðið.

Fyrstu viðbrögð foreldra eru oft líka afneitun enda trúa þeir ekki að þeirra barn hafi eitthvað til þess að bera að vera lagt í einelti. Þetta er einhver vitleysa, einhver tímabundin ágreiningur, vandamál sem horfið verður í næstu viku. Því miður eru síðan viðbrögð foreldra, þegar raunveruleikinn blasir við, mikil sorg, sjálfsásökun, skömm og vanmáttur. Það sem síðan gerir málið jafn vandasamt og erfitt viðureignar er mikil afneitun foreldra gerandans. Barnið mitt tekur ekki þátt í einelti!

Einelti gerir ekki manna mun, það spyr ekki um stétt eða stöðu það getur hitt okkur öll. Þetta er mikið þjóðarmein sem kostar samfélagið gríðarlegar upphæðir á ári hverju í heilbrigðiskerfinu. Við getum breytt þessu til betri vegar en það þarf að eyða fordómum með því að draga vandamálið fram í dagsljósið og fræða fólk um meinið. Hvað veldur því að börnin okkar verða fyrir einelti? Er það félagsleg minnimáttarkennd sem veldur kvíða og þunglindi barna okkar? Hvað veldur því að börnin okkar falla fyrir eigin hendi eða krumlu vímuefna?

Miklar fjárhæðir eru settar í að hjálpa ungu fólki út úr vímuefnavanda en því miður er árangur okkar lítill í forvarnarmálum. Við samanburð á því fjármagni sem sett er í áfengis og vímuvarnir á Íslandi og þeim árangri sem af þeirri vinnu hlýst, hljótum við að spyrja okkur hvort við séum ekki komin af réttri leið. Við neitum að trúa því að rétta leiðin sé alltaf að auka fjármagnið. Það fer allt of mikill tími og peningar í að greina vanda sem okkur er fullljóst að er til staðar í samanburði við þá vinnu sem lögð er í forvarnarstarf. Það eina sem dugar í baráttunni við vímuefnin er að draga úr eftirspurn og það gerum við með því að búa börnum okkar betra líf en við gerum í dag.

Þunglyndi og félagsleg einangrun

Fyrir mér voru það forréttindi að fá að kynnast syni mínum þann stutta tíma sem hann lifði og verða þess aðnjótandi að þroskast sem persóna fyrir hans tilstilli. Hann var yndislegur drengur sem ekkert aumt mátti sjá; duglegur, ósérhlífinn, samviskusamur og traustur. Ég gat alltaf treyst á hann. Nokkrum dögum eftir útförina hringdi í mig drengur á Kleppi til að segja mér hvað sonur minn hefði alltaf verið góður við sig og hvatt sig áfram þegar þeir voru í Fjölsmiðjunni. Þarna var honum rétt lýst, því einmitt svona var hann; alveg einstakur öðlingur.

En hann var jafnframt bitur. Það fann ég best á því hvað hann gat stundum verið gagnrýninn á fólk og skoðanir þess þegar við töluðum tveir saman. Þó fann ég aldrei slíkt í hans framkomu við annað fólk, hann var alltaf mjög kurteis og bóngóður. En hann treysti ekki á nálægð við annað fólk og átti verulega erfitt með allt slíkt. Honum leið best útaf fyrir sig, þar sem hann var laus við allt utanaðkomandi áreiti. Að stærstum hluta held ég að gagnrýni hans á aðra hafi verið til að réttlæta að hann umgekkst ekki viðkomandi. Hann nánast beit alla af sér sem reyndu að nálgast hann og það var alveg sama hvað við hin reyndum.

Eftir á að hyggja sé ég að hann leit aldrei á sjálfan sig sem venjulegan mann. Honum fannst hann alltaf vera utangarðs og taldi sig ekki eiga samleið með öðrum nema að mjög takmörkuðu leyti. Við foreldrarnir upplifðum ekki líðan hans á þennan hátt, þessa miklu höfnun sem bjó innra með honum og þennan félagslega vanmátt. Við litum fremur á þetta sem hans val um hvernig hann vildi lifa lífinu þá stundina. Við upplifðum hann bara sem mikinn einfara, grúskara og hugsuð og biðum eftir því að hann breytti um stefnu. Það er nefnilega ekki auðvelt að átta sig á ýmsu í fari barna sinna, því foreldrar sjá þau alltaf í sínu eigin tiltekna ljósi.

Við kynnumst þeim glaðværum á árdögum lífsins og sjáum þau í raun alltaf innst inni sem slík. Afgreiðum síðan breytta hegðun þeirra oft sem tímabundið breytingaskeið og hluta af þroskaferli. Teljum kannski eðlilegt að sum áhugamál þeirra séu okkur framandi þessa stundina og betra sé að vita af þeim inni í herberginu sínu að brasa eitthvað en vera einhverstaðar út á lífinu við vafasamari aðstæður. Alls ekki svo slæmt - indæl börn, aldrei með vesen.

Skóalakerfið

Því miður á skólakerfið stærstan þátt í því hvernig fór fyrir drengnum mínum. Hann var vel gefinn, í raun greindari en flest okkar. Svonefnt raungreindarskor hans mældist vel yfir eitthundrað og tuttugu, en talið er að um fimm prósent mannkynsins nái svo hárri mælingu. Hæfni drengsins var fyrst og fremst á sviði sjónúrvinnslu, rökhugsunar og heildræns skilnings.

En hann bjó við fötlun sem gerði honum ekki kleyft að fylgja skólafélögum sínum eftir í námi, þrátt fyrir þessa miklu greind. Þetta uppgötvaðist fljótlega eftir að skólaganga hans hófst. Til að byrja með gekk honum vel, enda var hann mikill orkubolti og með sjálfstraustið í lagi. Hann kom vel staddur félagslega upp úr leikskóla og málþroski hans var mikill. Það var honum því mikið áfall þegar í ljós kom að hann var með lesblindu á háu stigi. Hann réði ekki við þá kennslutækni sem stuðst var við í skólanum.

Hann beygði af, niðurbrotið var algert og sjálfsmyndin hrundi. Hann þoldi ekki áreiti kennara og foreldra við að reyna að kenna honum að lesa, eitthvað sem hann skildi ekki og réði ekki við. Hamingjusami og lífsglaði drengurinn með sterku sjálfsmyndina var nú allt í einu orðinn að vandamáli sem þurfti sérstaka meðferð. Þetta skynjaði hann, gat ekki sætt sig við breytinguna og vildi bara sleppa því að lesa. Önnur fög gengu betur, sérstaklega gekk honum vel í reikningi.

En þá dundi annað áfall yfir, því þegar kom að því að læra margföldunartöfluna gekk hvorki né rak. Hann gat ekki lært hana utan að með þeim hætti sem gerð var krafa um. Nú var sem veröld hans hryndi endanlega. Sjálfur hef ég glímt við lesblindu alla mína ævi en gæfa mín var kannski sú, að hugtakið var ekki til þegar ég var að alast upp. Ég var bara flokkaður sem meðal nemandi með þokkalega námshæfileika. Ég átti sjálfur mjög erfitt með margföldunartöfluna en uppgötvaði aðferð við að læra hana til fullnustu, sem byggðist á samlagningu og frádrætti.

Sú aðferð gagnast mér vel enn í dag. Þessa aðferð sýndi ég syni mínum, hann greip hana umsvifalaust á lofti og uppgötvaði að þetta var ekkert mál. En viku seinna kom hann niðurbrotinn úr skólanum; kennarinn bannaði honum að nota aðferðina. Hann varð að geta þulið töfluna upp með sama hætti og aðrir. Það var eins og honum væri bannað að hugsa.

Brotin sjálfsmynd

Það er auðvitað skelfilegt að svona skuli vera komið fram við lítil börn. Því miður er fjarri lagi að þetta sé einsdæmi. Það má nánast lýsa því sem hreinni mannvonsku hvernig skólakerfið brýtur þessi börn niður og sviptir þau trúnni á eigin getu. Hvernig er hægt að ætlast til þess að lítil börn skilji hvað er að gerast í lífi þeirra við þessar aðstæður? Börn skilja ekki fyrirbærið lesblindu og þaðan af síður hafa þau þroska til þess að vinna á henni. Það skynja bara að eitthvað er að sem þau skilja ekki. Þau finna að þau eru á einhvern hátt öðruvísi, en hafa eðlilega ekki þroska til að horfast í augu við vandamálið. En kerfið minnir þau daglega á veikleika þeirra með sínu gengdarlausa ,,hjálparstarfi", þrátt fyrir að barnið hafi engan þroska til þess að horfast í augu við vandann, því síður að vinna á honum.

Barnið skynjar meðferðina sem það fær sem áreiti, áreiti þar sem það er sífellt minnt á veikleika sinn. Oft veldur það mikilli afneitun barnsins með hrikalegum afleiðingum, því með þessum vinnubrögðum er skólakerfið ómeðvitað að búa í haginn fyrir einelti. Þeir einstaklingar sem á þennan hátt falla ekki inn í skólakerfið eru taktfast brotnir niður og verða auðveld bráð eineltis. Þeir hafa ekki lengur þann styrk sem nauðsynlegur er til að standa áreitið af sér, enda bara lítil börn með brotna sjálfsmynd. Kerfið hefur svipt þau öllum vörnum.

Einstaklingur sem er slakur í íþróttum heldur sig fjarri íþróttum. Barn sem gengur illa í skóla á hins vegar enga undankomuleið. Það er berskjaldað og pínt áfram við lexíur sem það er ekki móttækilegt fyrir. Og það sem verra er; árangur af þessari vinnu er því miður lítill sem enginn, það hafa rannsóknir sýnt. Nemandi sem er látinn berjast í efni sem hann hefur ekki þroska til að skilja, er líklegur til þess að loka á vandamálið og það geta liðið mörg ár þar til hann er tilbúinn til að reyna aftur með jákvæðu hugafari. Þá spyr maður sig; til hvers var stofnað ef það eina sem kemur út úr þessu er einstaklingur með niðurbrotna sjálfsmynd og enga trú á eigin getu? Sonur minn varð þannig barn. En hann var ekki einn um að vera þannig.

Ég hef slíka einstaklinga fyrir augunum alla daga í mínu starfi. Ég reyni að breyta þessu ástandi með því að beita áhrifum mínum í kerfinu, sumt er að ganga en því miður mikill meirihluti ekki. Oft hef ég orðið fyrir aðkasti þeirra sem telja sig vita allt best, þeirra sem flagga námsgráðum eftir að hafa lesið þykkar bækur. Ég hef hlustað á ruglið í sumum þeirra árum saman. Ég hef auðvitað líka lesið bækur, kannski ekki eins þykkar, en ég hef hins vegar fundið vandann á eigin skinni. Og mest hef ég fundið vandann á skinni barnsins míns og hjá fjölda nemenda minna. Á meðan alltof margir þeirra sem fjalla um þessi mál sjá ekki skóginn fyrir trjánum, skánar ástandið ekkert, en versnar þess í stað með hverju árinu.

Þeim fjölgar stöðugt nemendunum sem koma upp úr grunnskóla með árangur sem margir framhaldskólar telja að nægi þeim ekki einu sinni til þess að hefja nám á almennri braut sem þó var stofnað til fyrir nokkrum árum sérstaklega með það fyrir augum að koma til móts við börn sem stæðu höllum fæti eftir grunnskóla. Algengt er að skólar geri kröfu um að nemendur hafi staðið eitt samræmt próf á loka ári grunnskóla. En framhaldskólunum er gert að veita öllum aðgang að skólavist hvernig sem þeir standa námslega og þess dæmi að svo hægt sé að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir námslega eru framhaldskólar að bjóða upp á áfanga til að mynda í stærðfræði með námsefni fyrir 10 ára börn.

Það er búið að velta vandamálunum upp í framhaldskólanna. Þeir standa frammi fyrir hlutverki sem þeim var ekki ætlað, leysa vandamál sem löngu á að vera búið að leysa. Framhaldskólar eiga ekki að þurfa að kenna nemendum sínum að lesa né skrifa. Því miður eiga þessir krakkar litla von í kerfinu, þeir eru haldnir mikilli afneitun á eigin getu, bitrir og brenndir eftir erfið grunnskólaár og mörg með veruleg hegðunarvandamál.

Það eina sem þessi börn óska eftir, er að fá að vera gjaldgeng í lífinu og fá frið fyrir endalausu áreiti þar sem þau eru stanslaust minnt á hvað þau geti ekki eða skilji ekki. Það hafa allir hæfileika á einhverju sviði; það er okkar að hjálpa börnum að finna þá og hlúa að þeim. Það á til dæmis ekki að skipta máli hvort barn lærir að lesa 6 ára eða 12 ára. Það sem skiptir meira máli er að barnið sé hamingjusamt og meðvitað um að það sé eitthvað í það spunnið. Ég sagði oft að mér væri alveg sama þótt drengurinn minn hefði ekki lært að lesa fyrr en hann væri orðinn tólf ára, bara ef hann hefði orðið hamingjusamur. Nú mun ég kannski segja að mér hefði verið alveg sama hvort eða hvenær hann hefði lært að lesa yfirleitt, svo framarlega sem hann hefi orðið hamingjusamur og fengið að lifa.

Kröfur samfélagsins

Við þurfum að fara átta okkur á því hvernig samfélag við erum að búa til. Það virðist vera kappsmál að gera alla eins. Hugtakið um að allir eigi að hafa sama rétt, er túlkað á þann hátt að allir eigi að fara sömu leið, hvort sem hugur og styrkur þeirra stendur til þess eða ekki. Skilaboð foreldra og kerfis til barnanna felast gjarnan í setningunni;,,Þú verður að læra ef þú ætlar að komast eitthvað áfram í lífinu!´´

En hvað er að komast áfram í lífinu? Er ekki hamingjan það sem mestu máli skiptir? Hamingjusamt fólk lifir lengur, hvort sem það er menntað eða ómenntað. Erum við hamingjusöm? Kröfur samfélagsins eru orðnar svo bókmiðaðar að einstaklingur með mikla verkgreind en litla getu á bókina, þarf að fara í sérstaka meðferð svo hann eigi sama möguleika til þess að nýta rétt sinn til bóknáms eins og sá sem bókvitið hefur.

Háskólarnir spýta út úr sér hinum ýmsu sérfræðingum sem setið hafa á skólabekk árum saman, svo þeir geti hjálpað þessum vesalingum sem ekkert geta á bókina. Þetta markar fólk fyrir lífstíð hvað varðar kjark og trú á eigin getu. Kerfið er svo fullkomlega upptekið af því að hjálpa öllum að nýta rétt sinn til að verða námsmenn, að það er löngu gleymt að hamingjusamt líf hlýtur að vera það sem við öll ættum stefna að. Við virðumst hafa gleymt þeirri gleði sem felst í því einu að vera til og fá að elska. Af hverju telja menn að einstaklingur geti síður orðið hamingjusamur ef hann lærir ekki einhver ósköp? Eru börnin að læra fyrir sig eða okkur?

Ábyrgðin

Grunnskólinn hefur gjörsamlega brugðist þeim börnum sem ekki falla að kerfinu. Oft er það eina sem gert er fyrir þau, að kallað er eftir sérstökum greiningum sem síðan er unnið lítið með eða ómarkvisst. Og oftar en ekki er síðan fjársvelti frá hinu opinbera ranglega kennt um þegar árangur skilar sér ekki. Þessi börn fljóta bara með, þau brynja sig gegn áreiti skólans og hugsa um það eitt að þrauka og lifa af. Til að fría sig ábyrgð kallar skólinn eftir greiningu þegar nemandinn fellur ekki í staðlaða mótið.

Vond hegðun er oft eina svar barns sem upplifir getuleysi í námi og hegðunin versnar síðan bara við vaxandi námsáreiti. Þetta mikla árreiti ræður nemandinn ekki við og upplifir sem ögrun, jafnvel fjandsamlega árás sem að hans mati er framkvæmd af vondu kerfi og misvitrum kennurum. En enginn vill axla ábyrgð. Undanfarið finnst mér þó eins og aðeins sé að rofa til. Fólk er farið að sjá að ekki er allt með feldu í grunnskólakerfinu en fáir eru þó tilbúnir að viðurkenna mistök. Menn benda bara hver annan, ráðleysið er algjört og auðveldast að kenna um fjárskorti.

Það er vinsælasta afsökun kennara og skólayfirvalda yfir lélegri frammistöðu og framkvæmdaleysi. Önnur vinsæl afsökun er að kenna foreldrum og uppeldi á heimilum um ástandið í skólanum. Auðvitað hefur afskiptaleysi heimila áhrif en það er fjarstæða að halda því fram að það sé meginástæða. Misræmið blasir víða við. Hvenær er til dæmis einstaklingur sem ekki getur dregið beina línu eða haldið lagi í söng, sendur í greiningu, stuðning eða sérkennslu? Annað dæmi; við vitum öll að kynþroski mætir krökkum á mismunandi aldri, en við erum þó sífellt að ætlast til þess að allir þroskist til náms á sama aldri.

Engum dytti í hug að senda 13 ára stúlku til sérfræðings vegna þess að hún væri ekki orðin kynþroska! Það væri talin mannvonska og skilningsleysi að brjóta hana þannig niður. Við bíðum bara og vitum að þetta kemur einn daginn. Hraðinn og einstrengingslegar kröfur samfélagsins er að fara með fólk. Krakkar eru keyrðir áfram í skólakerfinu án þess að horft sé til hægri eða vinstri; enginn má verða eftir, allir skulu hafa sama rétt og sömu stöðu! Nemandi sem ekki nær að höndla námsefni dagsins í dag er samt færður upp í næsta bekk að hausti, þar sem námsefnið er ennþá snúnara en það sem stóð í honum veturinn á undan.

Hvernig líður slíkum einstaklingi? Hvernig líður einstaklingi sem alltaf fær úthlutað ný verkefni sem eru erfiðari en þau sem hann skildi ekki fyrir? Þetta myndi undantekningarlaust brjóta niður fullfrískt fullorðið fólk, hvað þá börn á skólaaldri.

Námsframvinda

Að mínu mati er það út í hött að námsframvinda í grunnskóla skuli nánast alfarið ráðast af aldri en ekkert af getu. Eins og kom fram hér að ofan þá hef ég aldrei skilið þá mannvonsku að senda barn, sem ekki ræður við námið sitt í fimmta bekk upp í þann sjötta. Enda fráleitt að halda því fram að slíkt sé heppilegt fyrir barnið.

Ég er þó ekki að tala fyrir því að barn sitji eftir í bekk og horfi á eftir jafnöldrum sínum fara upp í þann næsta. Fordómar samfélagsins færu illa með sjálfsmynd barnsins við slíkt fyrirkomulag. Ég hef lengi haldið því fram að það eigi að skoða að taka upp áfangakerfi í grunnskólum landsins. Með því móti getur barnið einbeitt sér að námsefni á sínum forsendum og námshraði færi eftir hverjum og einum. Nemandi veldi sér námsefni sem hentaði honum betur þá stundina til að þroska sig og styrkja en gæti beðið með nám sem hann ætti erfitt með á þeim tímapunkti.

Með þessu móti værum við að styrkja einstaklinginn og búa hann betur undir að takast á við það nám sem honum reynist erfiðara. Þetta myndi ekki bara gjörbreyta líðan barna sem eiga erfitt með tiltekna þætti náms heldur einnig bæta líðan bráðgerðra barna. Bráðgerð börn myndu á sama tíma fá námsefni sem örvar þau og hvetur. Það er ljóst að þetta myndi verða til þess að börn gætu verið í grunnskóla til sautján eða átján ára aldurs, allt eftir því hvað þeim hentaði.

Ég er viss um að þetta myndi hafa gríðarleg áhrif á allt skólakerfið og mikið af þeim vandamálum sem við höfum í dag myndu hverfa. Kostnaðurinn sem fer í að viðhalda núverandi skólakerfi, með öllum þeim sérúrræðum sem við teljum okkur þurfa, er gríðarlegur og er að sliga mörg sveitarfélög. Nýtt fyrirkomulag myndi auðveldlega rúmast innan núverandi fjárhagsramma og með tímanum verða mun hagstæðara. Auk þess sem það myndi skila fleiri hamingjusömum börnum út í samfélagið. Það er hinsvegar alveg ljóst að ef við eigum að hafa þroska til þess breyta grunnskólanum á þennan hátt, þá þurfum við að útrýma fordómum.

Margir foreldrar hafa áhyggjur af því að börn þeirra standi sig ekki í námi og verði undir. Það hefur verið ýtt undir slíkar áhyggur í samfélaginu með gengdalausum árróðri, allskonar samanburði milli barna, milli bekkja, milli skóla, milli bæjarfélaga, milli landa og þannig mætti áfram telja. Foreldrar verða stressaðir og áhyggjufullir yfir því að barnið þeirra standist ekki samanburð, verði undir í samfélaginu og gera því kröfur um að skólinn geri eitthvað fyrir það. Við megum hinsvegar ekki gleyma hamingju barnsins í öllum látunum. Af hverju er ekki lagt jafn mikið upp úr samanburði á hamingju skólabarna og námsframvindu?

Er skólinn fyrir alla?

Rétt er að benda á að grunnskólinn hefur á undanförnum árum þróast í þá átt að henta stúlkum betur en drengjum. Niðurstöður margra kannana hafa sýnt að drengjum líður almennt miklu ver í skóla en stúlkum. En þrátt fyrir slíkar niðurstöður, ár eftir ár, hefur sára lítið verið gert til að bæta líðan drengja í grunnskólum landsins. Umræðan fer af stað í hvert skipti sem þessar niðurstöður koma fram, en lengra nær málið ekki. Það versta við málið er að flestum er ástæðan ljós.

Verkgreinum í grunnskólum landsins hefur fækkað verulega og það er vitað að drengir á þessum aldri eru miklu líklegri en stúlkur til að taka út þroska sinn í gegnum hendurnar. Verklegar greinar hafa þótt fjárfrekar og skólayfirvöld því haft horn í síðu þeirra. Við það að skera þær niður, jukust vandamál nemenda í skólunum og sparnaðurinn sem náðist með því að draga úr verkkennslunni, er löngu horfinn í haf gífurlegs kostnaðar við að leysa þau vandamál sem sprottið hafa af upphaflegum sparnaðarhugmyndum. Ákvarðanir um að draga úr verklegri kennslu hafa reynst hrein afglöp.

Samfélagið þarfnast ætíð góðra verkmanna og það er nauðsynlegt að hlúa að nemendum með verkvit og vekja áhuga þeirra á iðnnámi. Sem dæmi má nefna að talið er að almennt sé þörf fyrir um átjánhundruð rafvirkja á Íslandi, en að sögn er heildarfjöldi þeirra starfandi í landinu innan við helmingur þess fjölda. Svona er þetta í mörgum iðngreinum. Ég velti því stundum fyrir mér hversu marga fleiri hamingjusama iðnaðarmenn við ættum, ef kerfið hefði ekki hlaupið svona á sig.

Auðvitað vildi sonur minn ekki fara. Yfirgefa foreldra sína og systkini, sjá okkur aldrei framar. En eftir flokkunina var honum bara sópað út af borðinu, hann fékk aldrei sitt tækifæri. Hann fékk aldrei að vera hann sjálfur og gera hlutina eins og hann hefði þurft að gera þá.

Hér eftir læt ég engan segja mér hvað sé rétt og hvað rangt í þessum málum. Og nú þegar barnið mitt er farið sit ég eftir með eitt lítið pappírssnifsi, pappírssnifsi svo ómerkilegt en samt svo dýrmætt. Það hefur að geyma síðustu orð barnsins mín til mín, þar sem hann segir mér að hann hafi gefist upp á að breytast, því ekkert breytist og hann verði aldrei manneskja.

Þráinn Lárusson skólameistari Hússtjórnarskólans Hallormsstað og bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði

laugardagur 17 nóvember 11 2018
Nýjustu fréttir
http://www.kolbrunbaldurs.is/ Á þessari síðu getur þú og...
Í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags 10. október...
Umboðsmaður barna sendi á mánudaginn, 21. mars 2011, bréf til allra...

Könnunn

Er eineltisáćtlun ţíns skóla ađgengi-og sýnileg?
  • Nei