Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

Styrktaraðilar, Liðsmenn Jerico

Allra Átta vefsíðufyrirtæki styrkir þessa vefsíðu. www.8.is

Leit.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.leit.is

Jómfrúin.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.jomfruin.is

IOGT styrkir Liðsmenn Jerico. www.iogt.is

DalPay styrkir Liðsmenn Jerico. www.dalpay.com

Grunnskólinn Þelamörk.
(áheitahlaup)

Starfsmannfélag Kaupþings.
(við Hlemm)

Jakob Einar Jakobsson.
(hjólaði hringveginn)

Merkjalist.
(www.merkjalist.is)

Bústaðarkirkja.
(www.kirkja.is)

Sögurnar okkar

Ég gleymi því aldrei hvar ég var stödd þegar ég heyrði að Lalli hennar Ingu væri dáinn. Þetta var sólríkur laugardagur og lífið var yndislegt. Ég beið í ofvæni eftir fæðingu frumburðarins og vonaði heitt og innilega að hann léti sjá sig þá um daginn. Þá yrði hann nefnilega tvíburi – eitthvað sem mér hafði þótt einstaklega eftirsóknarvert.

Svo kom símtalið og heimurinn hrundi. Við hjónin brunuðum upp í Þórsmörk þar sem Inga hafði verið og hjartað hamaðist í brjósti mér. Þegar ég mætti henni loksins á Hellu settist ég inn í bíl til hennar og alla leiðina í bæinn sat ég með hana í fanginu. Ég man að ég bað til guðs að ég færi ekki af stað – ég gæti ekki eignast barnið mitt sama dag og vinkona mín missti sitt.

Lalli var dáinn og það var staðreynd. Á næstu dögum og vikum fóru brotin að falla saman og ég gerði mér í fyrsta skipti hvað var búið að gerast og hvað einelti hefur hryllilegar afleiðingar. Drengurinn sem ég þekkti var fálátur, blíður, sagði fátt og lét lítið fyrir sér fara. Það var ekki fyrr en síðar að ég áttaði mig á því að það er dæmigerð hegðun þeirra sem búið er að brjóta niður. Ég fylltist reiði þegar Inga sagði mér alla söguna. Söguna af því hvernig allt var reynt til þrautar á sínum tíma en það eina sem hún mætti voru lokaðar hurðir, hver embættismaðurinn benti á þann næsta, skólayfirvöld hristu höfuðið eins og þetta kæmi þeim ekki við á meðan að vængbrotin móðrin gerði allt sem í hennar valdi stóð til að vernda barnið sitt. Á meðan þessu stóð hélt ofbeldið áfram – fyrir allra augum og enginn gerði neitt.

Þegar Inga fór af stað og ákvað að leysa frá skjóðunni átti hún stuðning minn allan. Loksins höfðu allir þeir sem liðið höfðu vítiskvalir eineltis eignast málsvara. Manneskju sem tekið er mark á. Ekki verður lengur hægt að skella á hana hurðum, vísa henni til næsta embættismanns eða telja henni trú um að hún hafi rangt fyrir sér. Það getur enginn lengur talið henni trú um að ástandið sé ekki svona slæmt. Það lærði hún á erfiðasta hátt sem hægt er að hugsa sér.

Það þarf að skera upp herör gegn eineltinu í eitt skipti fyrir öll og sem liðsmaður Jerico tek ég stolt þátt í þeirri baráttu – í nafni Lárusar og allra hinna

Þóra Sigurðardóttir

Mig langar að segja frá minni upplifun af því að eiga frænda sem varð fyrir slæmu einelti og hvaða áhrif það hefur haft á mig og allt mitt umhverfi.

Systursonur minn var 13 árum yngri en ég, og oftar en ekki fannst mér hann vera eins og litli bróðir minn.

Það sem gerði samband okkar svona sérstakt og okkur náin, var það að þegar þessi litli engill fæddist sá ég ekkert nema hann.  Þetta var fyrsti litli frændi minn og ég eyddi öllum þeim tíma sem ég mögulega gat heima hjá systur minni að passa hann.  Oftar en ekki var ég spurð úti á götu eða í búðum hvort ég ætti þennan fallega strák.

Það var því hryllingi líkast að komast að því hve illa honum leið í skólanum og hafði gert í langan tíma. Þegar hann var að komast á unglingsárin sem oft geta verið strembin en eiga jafnframt að vera skemmtilegustu árin, þar sem við erum að uppgötva og kynnast svo mörgu nýju og spennandi.

Að fylgjast með því hvernig þessi káti, glaði, duglegi og skemmtilegi strákur fór smám saman að draga sig til hlés og vilja helst bara vera einn inni í herbergi með sínar Andréssyrpur og þegar hann varð eldri, þá var það tölvan.

Strákur sem var alltaf svo uppátækjasamur en breyttist í einrænan dreng sem læddist með veggjum.  Hann varð félagsfælinn og þunglyndur, það var honum meira að segja um megn að vera í sínum eigin afmælisveislum ef gestirnir urðu of margir.  Þá laumaði hann sér inn í herbergi sem varð hans athvarf.  Hann dró sig inn í sína skel og hætti að hafa samskipti við aðra en nánustu ættingja.

Það var alveg sama hvað ég reyndi að ná til hans, hann hleypti mér ekki að sér nema upp að ákveðnu marki.  Sem dæmi um það hve sjálfsmyndin var brotin og sjálfstrausti lítið má nefna að ef ég var að hrósa honum fyrir góða hluti sem hann hafði gert eða hvetja hann  áfram í því sem hann var að gera, þá varð hann vandræðalegur og leið hreinlega illa, hann átti erfitt með að taka hrósi og trúa að hann ætti hrós skilið, jafnvel frá mér, frænku sinni.

Hann upplifði athyglina frekar eins og verið væri að gera grín að honum.  Hann sá bara alls ekki það sama og við hin.  Þá var ekkert sem ég gat gert nema vera til staðar fyrir hann, ef ske kynni að hann vildi leita til mín. Það er það erfiðasta sem ég hef upplifað, að vera svo hjálparvana gangvart þeim sem manni þykir svo vænt um og langar svo mikið til að hjálpa.

Ég hef eytt miklum tíma í það að hugsa um hvernig hann hafi það núna, hvað hann sé að gera og hvort allt sé í lagi.  Þetta heltekur mann og verður til þess að aðrir hlutir lenda á hakanum.  Þannig bitna mínar tilfinningar og vanlíðan á minni fjölskyldu, en ég á 3 dásamlegar dætur og yndislegan maka.

Ég reyni að útskýra fyrir dætrunum hvers vegna mamma getur verið svona leið, pirruð eða eirðarlaus. Einnig að útskýra fyrir þeim hvað það er sem er um að vera og reyna eftir fremsta megni að hjálpa þeim að skilja þetta og að vera til staðar fyrir þær þegar þær vilja fá svör.

Ég hef leitað mikið til vina minna,  til að fá öxl til að gráta á og bara til að tala, þannig teygir þetta sig út fyrir fjölskylduna. Einelti er dauðans alvara og það snertir svo miklu fleiri en bara þann sem verður fyrir því.

Ég hef reynt að vera til staðar fyrir systur mína,  og það að hafa fylgst með henni öll þessi ár í baráttunni fyrir tilverurétti sonar síns hefur veitt mér styrk.  Það skiptir öllu máli að eiga góða að í þessum aðstæðum.

Þegar systir mín svo ákvað að fara af stað með samtök fyrir foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda, var það aldrei nokkur spurning um hvað mig langaði að gera. Ég þurfti ekki að hugsa mig um þegar hún fór að ræða þessa hugmynd við mig, ég vildi vera með og fá að leggja mitt af mörkum. Ég er liðsmaður Jerico og er stolt af því. Mig langar að koma í veg fyrir að einelti þrífist, að hjálpa og leiðbeina þeim sem eiga í þessari baráttu núna eða hafa átt. Ég vil koma þeim skilaboðum á framfæri að það eru hetjurnar sem stíga fram og segja frá, að halda umræðunni opinni og brjóta niður þagnarmúrana. Ég vil þjóðarátak gegn einelti......

Dagný Baldursdóttir

Ég er Liðsmaður Jerico og er stolt af því – ég fékk ákall til þjóðar frá Ingu (Ingibjörgu Helgu Baldursdóttir) sent í tölvupósti og svaraði því um hæl.  Við Inga þekktumst ekkert, en eigum sameiginlega þá reynslu að þekkja einelti á eigin skinni.

Ég er þakklát fyrir að eiga líf, vera enn á lífi og eiga yndislegar dætur sem gefa mér svo margt, gefa mér alla þá von og styrk sem ég þarf í dag til að halda áfram þeirri þrautagöngu sem lífið getur verið.

Einelti er ekki nýtt fyrirbæri, en það hefur breyst og aukist, orðið harðara og erfiðara viðureignar.  Þegar ég hóf mína skólagöngu vissi enginn hvað einelti var, þetta orð var ekki til.  Orðið stríðni var til og það var eitthvað sem viðurkenndist og viðgekkst.

Eineltið sem ég varð fyrir hófst strax á fyrsta eða öðru skólaárinu mínu og viðgekkst alla mína skólagöngu.  Í mörgum myndum og það voru margir sem tóku þátt í því þó svo að til að byrja með hafi gerendurnir verið tveir.

Þeir sátu fyrir mér ítrekað svo ég kæmist ekki mínar leiðir, hlupu aftan að mér og drógu mig niður í götuna, spörkuðu í mig og létu niðrandi athugasemdir flakka, þetta eru bara brot af þeim minningum sem ég hef af fyrstu skólaárum mínum.

Enn þann dag í dag fæ ég niðurlægjandi athugasemdir og skot frá þessum sömu einstaklingum, ég held að þetta sé einhver vani sem sumir gerendur festast í og gera sér eflaust ekki grein fyrir því hvernig þeir koma fram við fólk almennt.

Þeirra leikur var að níðast á mér með andlegu og líkamlegu ofbeldi þeir kunnu ekki að leika sér öðruvísi.  En þeir gerðu sér ekki grein fyrir því þá og kannski ekki ennþá hvað þeirra leikur hafði og hefur varanleg áhrif á mig.  Þeim tókst með leiknum að brjóta niður mína sjálfsmynd sem enn í dag 20 árum síðar er brotin. Líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi og félagsleg útilokun/höfnun markaði mig fyrir lífstíð.

Í dag stend ég upprétt, það er alltaf til ljós, ég er svo heppin að eiga yndislega fjölskyldu, yndislegar dætur sem svo sannarlega hafa haldið mér á floti, ég var ung orðin móðir og tók því ábyrgð á öðru lífi.  Kannski er það líf, þau líf bjargvættar mínir hver veit?

Að vera uppkomin þolandi langvarandi eineltisofbeldis er ekki eins og að vera uppkomin einstaklingur sem hefur átt jákvæða skólagöngu og barnæsku.

Að verða fyrir niðurlægingunni og höfnuninni sem fólst í eineltinu hefur gert mig þannig að ég er alltaf hrædd um að verða hafnað. Mistúlka aðstæður sem höfnun þó, svo að aðstæðurnar séu ekki þannig.

Staðreyndin er að ég trúi að mér verði alltaf hafnað á endanum, hræðslan.  Það var alveg sama hvernig ég reyndi að sannfæra aðra eins og t.d. samnemendurna mína á sínum tíma um mitt ágæti þá kom skellurinn – HÖFNUNIN.

Eineltisskugginn er og verður alltaf hluti af mér. Ég er alltaf að berjast við sjálfa mig, reyna að stöðva mig í þrotlausri leit eftir viðurkenningu annarra. Jafnvel fórna heilmiklu til að þóknast öðrum, til þess eins að fá jákvæða viðurkenningu og vera tekin gild í hópnum.  Í æsku gerði ég þetta líka, ég keypti mér jafnvel vináttu.

Rúmlega 20 ára gömul átti ég orðið mjög erfitt vegna þunglyndis, var með tvær litlar stelpur og varð að standa mig gagnvart þeim, ég gat ekki gert meir var að bugast og verður frænku minni seint þakkað fyrir það inngrip sem hún gerði.  Ég fékk aðstoð hjá fagfólki og tókst að vinna bug á þunglyndinu. Ég veit og er meðvituð um að ég get átt auðvelt með að sökkva í lægðirnar.

Nákvæmlega þetta er ástæðan fyrir því að ég svaraði ákalli frá Ingu.  Það er von mín að mín reynsla, þekking og dugnaður verði Liðsmönnum Jerico liðsstyrkur.  Ég er sannfærð um að þessi sterka heild úr ólíkum áttum sem koma að stofnun samtakanna Liðsmanna Jerico og allt það yndislega fólk sem hefur boðist til að aðstoða okkur verði til góðs.

Núna er kominn tími til að uppræta þessa skömm og stíga fram, hvort sem við erum þolendur, gerendur, áhorfendur, foreldrar, kennarar, skólastjórnendur, vinnuveitendur eða aðrir einstaklingar.  Tökum okkur saman og leggjum málefninu lið. Einelti er mál okkar allra, bæði okkar og þíns lesandi góður.  Stöndum þétt saman og hjálpumst að við að koma á Þjóðarátak gegn einelti!

Elísabet Sóley Stefánsdóttir (Tómstunda- og félagsmálafræðingur).

 

Þann 21. júní síðast liðinn gafst sonur minn, Lárus Stefán Þráinsson upp á lífinu, brotinn eftir áralangar misþyrmingar eineltis. Hann var einungis 21 árs gamall.

Hann fékk ekki að njóta tilveruréttar síns sem barn og fannst hann vera utanvelta allstaðar. Hann passaði hvergi inn.

 

Ég get ekki hugsað mér að nokkur þurfi að ganga í gegnum það sama og ég og sonur minn gengum í gegnum á sínum tíma. Það að standa í þeim sporum að eineltisofbeldi valdi barni manns óhamingju og einangrun á ekki að líðast og að hlutirnir geti gengið svona í mörg ár er ófyrirgefnanlegt.

 

Líf mitt hrundi og gleðin dó þegar ég fékk þær skelfilegu fréttir að barnið mitt, ungi maðurinn minn væri dáinn. Baráttan við afleiðingar eineltisins var töpuð. Mín fyrsta hugsun var að ég vildi sjálf deyja, að ég vildi komast til hans, að ég yrði að fá að hugga hann, halda honum í fangi mér og umvefja hann ást og umhyggju. Hann þyrfti lá mér að halda og hvernig í ósköpunum skyldi yngri syni mínum líða?

 

Ég gat ekkert gert nema að skjálfa, stjörf af áfalli og yfirkomin af sorg. Yngri sonur minn, eldri systir hans, fjölskyldan og vinirnir öll stórslösuð á sálinni og í hjartanu.

Lárus gafst upp á lífinu. Svo brotinn var hann eftir eineltið sem hann varð fyrir.

Þunglyndi var afleiðingin og það er dauðans alvara.

 

Sjálfsmynd hans þessa duglega, hugrakka, samúðarfulla, umhyggjusama, skilningsríka, skemmtilega og fallega unga manns var svo skemmd að þunglyndið kæfði hann.

 

Hann sá bara svartnættið í sínu þunglyndi, þunglyndið tók völdin af honum. Þunglyndið varð skynseminni og lífsviljanum yfirsterkara.

Ekkert breytir því í dag.

 

Það vafðist samt aldrei fyrir mér og fjölskyldunni þegar hann dó hvert væri framhaldið hjá mér. Baráttan gegn einelti hófst hjá okkur saman og nú held ég áfram með son minn í anda mér við hægri hönd og fjölskyldu og vini við þá vinstri.

 

Það vafðist heldur ekki fyrir mér hvernig ég ætlaði í þessa eineltisbaráttu og hér er ég nú að kynna hana fyrir ykkur. Ykkur sem skiptið okkur svo miklu máli í því Þjóðarátaki gegn einelti sem við ætlum að hefja – með ykkar hjálp.

 

Það kom aldrei til greina að þegja þessa skelfilegu reynslu í hel.

Það þarf að vinna gegn því þjóðfélagslega meini og broti á mannréttindum sem eineltisofbeldi er og um leið að draga úr þeim skaðlegu áhrifum sem afleiðingar eineltis hafa á allt þjóðarbúið.

 

Afleiðingar eineltis eru veikindi á sál og líkama hjá heilu fjölskyldunum og kostar heilbrigðiskerfið, atvinnulífið, félagsmálakerfið og menntakerfið árlega stórfé.

 

Það þarf að brjóta niður múra þagnarinnar, skammarinnar, varna- og ráðaleysis.

Og byggja upp brotna sál, virðingu og umhyggju og bjóða betra geðheilbrigði.

 

Í kjölfar dauða Lárusar hefur orðið mikil umræða um einelti í fjölmiðlum og sem náð hefur að fanga athygli fólks um allt land. Til okkar hefur leitað mikill fjöldi fólks með svipaða sögu að segja og við.

Þetta fólk á ýmist börn sem glíma við þetta þjóðarmein eða það hefur sjálft farið illa út úr einelti og oftast ekki náð að vinna sig út úr því.

 

Við höfum nú hrundið á stað þjóðarátaki gegn einelti með því að stofna samtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda, Liðsmenn Jerico.

 

Við finnum fyrir miklum meðbyr með stofnun samtakanna enda virðist þörfin vera mikil fyrir þolendur á öllum aldri sem og aðstandendur.

Það er eins og fólk sé betur að uppgötva hvað einelti er í raun alvarlegt, enda markar einelti fólk til lífstíðar og er oft orsök heilsufarslegra vandamála í mörg ár eftir að eineltinu líkur.

 

Það er algjörlega óásættanlegt að fólk þurfi að upplifa svo mikla uppgjöf barna sinna á samfélaginu vegna áralangra byrða eineltis og félagslegs vanmáttar eða einangrunar.

Því miður eru þeir margir þolendurnir sem taka það sorglega skref frá þjáningu sinni sem sonur minn tók.

Flestir þolendur lifa þó eineltið af en líf þeirra verður aldrei samt á eftir.

Flestir glíma við þunglyndi, skömm, reiði og félagslegt óöryggi í mörg ár og margir jafna sig aldrei; líf þeirra er markað til frambúðar.

 

Því miður fer þeim þolendum fjölgandi sem kjósa að deyfa sársauka sinn í vímuefnum og eru þeir auðveld bráð fíkniefna.

Þegar rætt er um forvarnir í vímuvörnum þá finnst okkur oft skorta skilning á því að vímuefnanotkun getur verið afleiðing annarra vandamála en ekki alltaf orsök þeirra.

Þegar við förum að nálgast vímuefnavandann sem hugsanlega afleiðingu vandamála er meiri líkur á því að við áttum okkur betur á orsökunum þess að börnin okkar lenda í klóm vímuefna.

 

Einelti gerir ekki manna mun, það spyr ekki um stétt eða stöðu; það getur hitt okkur öll. Það skiptir ekki máli hvort þú ert ríkur eða fátækur, hvítur, svartur eða gulur, lítill eða stór, heilbrigður eða fatlaður.

Næsta fórnalamb gæti orðið barnið þitt, systkini þitt, foreldrar þínir, nákominn ættingi þinn, vinur þinn eða vinnufélagi.

 

Við getum breytt þessu til betri vegar en það þarf að eyða fordómum með því að draga vandamálið fram í dagsljósið og fræða fólk um meinið.

Tilgangur og markmið með stofnun Liðamanna Jerico

Ráðgjöf-Upplýsingar-Fræðsla

Er að vinna fyrir fullorðna fólkið.

Með því að styðja við bakið á foreldrum eineltisbarna og uppkomnum þolendum, vera upplýsingamiðstöð / þjónustumiðstöð.

Við viljum tryggja að foreldrar standi ekki einir, að þeir hafi ákveðinn stað að leita til.

Að allir þolendur eineltis, hafi stað til að leita á.

 

Er að vinna sem þrýstihópur á stjórnvöld og yfirvöld, hugarfars- og viðhorfabreytingum og auknum skilningi á alvarleika eineltis í þjóðfélaginu. Fyrir þeim breytingum þar sem þörf er á innan skólakerfisins. Eins og t.d. að fylgjast með sýnileika eineltisforvarnaáætlana skólanna og hvort eineltisteymi séu starfandi í skólum, skoða aðgengi fólks að eineltisforvarnastefnu skólanna. Hversu góð er hún.

Að þolendur eineltisofbeldis eignist málsvara sem þeir hafa ekki átt.

Það er ekki skömm, að þora að koma fram. Það er hetjuskapur. Persónulegur sigur þolanda eineltis.

Það er bláköld staðreynd að einelti drepur og það hjálpar engum að þegja alvarleika eineltis í hel og afneita vandanum.

Við ætlum að vera sýnileg, minna stöðugt á okkur. Með öllum ráðum, leita allra leiða. Nota alla fjölmiðla, vefmiðla og koma í framkvæmd erindum sem minna stöðugt á okkur Liðsmenn Jerico.

 

Framtíðarsýn Liðsmanna Jerico:

 

Er á meiri fræðslu um eineltismál og hvernig hægt sé að sporna við einelti og koma í veg fyrir að það nái að fá að verða til, að huga enn betur að því byggja upp sjálfstraust hjá öllum börnum, öllum unglingum, öllu fólki.

Framhaldsskóli, atvinnulífið eða háskólanám bíður og þar byrja brotnu sálirnar á nýjum kafla í lífinu dauðkvíðnar fyrir því hvernig þeim verði tekið, hvort að á nýja staðnum séu gamlir kvalarar, hvort að þeir geti þetta.

Fullorðinn þolandinn fer alveg jafn illa út úr einelti eins og barn ef ekki verr því að hann hefur engan til að berjast fyrir sig. Hann er fangi í einangrun, reiði og skömm, algjörlega bjargarlaus.

Veikindin verða alvarlegri, fjarvera úr námi og vinnu vegna vanlíðunar. Námsárangur slaknar, vinnueinbeiting versnar, mætingin slaknar. Þetta kemur svo niður á námi, námslánum, starfinu, laununum og sálinni.

Tímar hjá sálfræðingum og geðlæknum, heilurum og allt sem hægt er að láta sér detta í hug til bóta fyrir þolandann kostar stórfé.

Þolandinn á jafnvel ekki eftir peninga til að borga fyrir hjálpina eða lyfin sem bjóðast.

Hvernig er hægt að komast hjá því að verða þunglyndur, kvíðinn og félagsfælinn?

Geðheilbrigði er í veði og ungu fólki er að fjölga hratt sem fær öryrkjamat vegna þess að það treystir sé hreinlega ekki út úr húsi.

Alvarlegasta afleiðing eineltis er að fólk tekur líf sitt svo það losni undan kvölum sínum og niðurbroti. Það gefst upp á lífinu, gefst upp á að reyna að falla inn í þjóðfélagið.

Eineltisofbeldi þarf að taka föstum tökum og skilaboðin út í þjóðfélaginu þurfa að vera skýr. Einelti er ofbeldi, ofbeldi er glæpur.

Gerendur í eineltismálum leiðast oft út í aðra glæpi og önnur afbrot síðar á ævinni.

Fræðslan ætti að byrja í leikskólum landsins því þetta er stígvaxandi vandamál, sem á að taka á núna og ekki seinna en strax.

 

Lokaorð

Ég trúi því og treysti að við getum tekist á við eineltið og ég vona af öllu mínu hjarta og allri minni sál að við getum sigrast á því.

Ég trúi því að við getum skapað börnunum okkar betra umhverfi, þar sem hver og einn fær að vera hann sjálfur, á eigin forsendum, hamingjusamur og í friði.

Ég trúi því og treysti að uppkomnir þolendur eineltis geti aftur öðlast trú og traust á samfélagið sem við byggjum.

 

Ég trúi því að við getum boðið öllum betra líf. Opnum hjarta okkar og sál fyrir þolendum eineltisofbeldis og brjótum niður múra þagnar og skammar. Breytum þjóðfélagi okkar til betri vegar með mannlegri og heilbrigðari samskiptum og sýnum samhug og samstöðu.

 

Jerico er barnið mitt. Stofnun Liðsmanna Jerico er ást mín til þess og allt mitt starf í nafni Liðsmanna Jerico er unnið af kærleika og umhyggju, Jerico til heiðurs.

 

 

 

Er nokkuð fallegra

en litla barnið þitt

á leið í skólann

í fyrsta sinn

með allt of stóra skólatösku

og pínu kvíða í augnaráðinu.

 

Og svo leit barnið upp

og brosti

úr augum þess

mátti greina virðingu

og stolt

 

Er eitthvað sem fyllir

hjarta manns

meiri gleði,

en hamingja

þess sem við elskum

mest af öllu í lífinu

barnanna okkar.

 

Inga Bald.

 

miđvikudagur 19 desember 12 2018
Nýjustu fréttir
http://www.kolbrunbaldurs.is/ Á þessari síðu getur þú og...
Í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags 10. október...
Umboðsmaður barna sendi á mánudaginn, 21. mars 2011, bréf til allra...

Könnunn

Er eineltisáćtlun ţíns skóla ađgengi-og sýnileg?
  • Nei