Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

Styrktaraðilar, Liðsmenn Jerico

Allra Átta vefsíðufyrirtæki styrkir þessa vefsíðu. www.8.is

Leit.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.leit.is

Jómfrúin.is styrkir Liðsmenn Jerico. www.jomfruin.is

IOGT styrkir Liðsmenn Jerico. www.iogt.is

DalPay styrkir Liðsmenn Jerico. www.dalpay.com

Grunnskólinn Þelamörk.
(áheitahlaup)

Starfsmannfélag Kaupþings.
(við Hlemm)

Jakob Einar Jakobsson.
(hjólaði hringveginn)

Merkjalist.
(www.merkjalist.is)

Bústaðarkirkja.
(www.kirkja.is)

Unga fólksins

Sagan hennar Sunnu Dísar

Ég veit ekki alveg hvort ég get eitthvað aðstoðað þig eða sé í þessum hópi fólks sem þú ert að leita að en ákvað samt að senda þér línu og deila með þér minni reynslu í grófum dráttum.

Ég vil gera það sem ég get til að fleiri börn lendi ekki í mínum sporum en ég verð því miður að segja að ég bý ekki yfir mörgum ráðum öðrum en að deila reynslu minni sem er reynsla svo margra annara.

 

Þessi saga er án efa mjög ruglingsleg á köflum og ég hugsaði mikið um hvort ég ætti að senda hana eða ekki og þér ber akkúrat engin skylda til þess að lesa hana.

Ég vildi stundum að ég ætti svona byssu sem ég sá einu sinni í bíómynd sem virkaði þannig að ef þú skaust geislanum úr henni í áttina að einhverjum fann viðkomandi nákvæmlega hvernig þér leið án þess að þú segðir orð. Myndi það ekki einfalda allt!

 

Þegar ég heyrði sögu Lárusar í fyrsta sinn hágrét ég vegna þess að ég áttaði mig á hversu litlu munaði að þetta hefði verið ég.

 

Ég er 21 (87) og ólst upp í litlum bæ út á landi. Ég held að ég hafi ekki verið í skólanum lengi þegar ég fór að álíta sjálfa mig frábrugðna hinum krökkunum. Það var fljótlega farið að setja út á fötin mín útlitið skóla dótið mitt fjölskylduna og hitt og þetta.

 

Í fyrstu þegar ég minntist á þetta við foreldra mína sögðu þau mér að þetta væri bara smá stríðni. Mamma sagði mér að láta sem ég heyrði ekki í þeim. Pabbi sagði mér að svara fyrir mig.

Eftir því sem þetta fór að ágerast og ég var elt heim úr skólanum, hjólið mitt var skemmt, ég fór að koma heim með marbletti sem ég gat ekki útskýrt og hafði "týnt" óvenju mörgum húfum var haft samband við skólann.

Kennararnir sögðu mér að láta þær vita þegar þetta gerðist en þegar þarna var komið er maður milli steins og sleggju. Maður svaraði stundum fyrir sig og ég hafði það reyndar með mér að ég stóð mig svo sem ágætlega í því.

 

En þegar margir standa saman á móti manni er lítið sem hægt er að gera. Mín versta bernskuminning er að fara á leikvöllinn með tvö yngri systkin mín ég hef verið um 10 ára og þar voru nokkur bekkjarsystkin mín og eldri krakkar í leikjum.

Þau réðust á mig, eltu mig heim hrækjandi og sparkandi í mig. Og það sem ég líð mest fyrir þegar ég rifja þetta upp er hvernig ég, stóra systir brást litu systkinum mínum á svo margan hátt. Það er ekki nema ár á milli mín og bróður míns og auðvita fékk hann að heyra það frá mörgum þessum krökkum líka.

 

Það er margt sem mér finnst fólk ekki gera sér grein fyrir í sambandi við svona einelti einsog  hvað það hefur svakaleg áhrif ekki eingöngu á andlega líðan heldur líka beint á líkamlega.

Ég fór fljótlega að fá kvíðaköst og þá mest þegar kom að bekkjarferðum og öðru slíku. Þau fóru síðan að gera vart við sig hvenær sem var og ég fékk svakalega kvíðaköst og hélt að ég væri hreinlega að deyja.

Ég var lögð inná spítala með næringarskort 14 ára og var fyrir löngu komin í meðferð vegna vöðvabólgu. Þegar maður er stressaður og líður illa allan daginn alla daga fer maður að upplifa fáránlegustu kvilla.

Ég var send til sálfræðings og sett á lyf vegna kvíðans. Fyrst ég var á lyfjum hlaut eitthvað að vera til í þessu hjá þeim, ég var eitthvað öðruvísi. Sona réttlætti maður þetta fyrir sjálfum sér aftur og aftur.

 

Í lok grunnskólans var ég alveg orðin ráðalaus. Strákarnir og stelpurnar fóru að vera kærustupör, stelpurnar fóru að stríða mér minna en strákarnir fóru að berja mig meira. Það var þar af leiðandi mikið sjokk fyrir mig þegar ég fór í framhaldsskóla og strákar fóru að sýna mér áhuga.

 

Þegar ég var í 9 bekk byrjaði félagsráðgjafi í skólanum sem var einn af þessum "töff náungum" sem sem var nýkominn úr meðferð og átti að ná svona vel til okkar.

Hann dreifði númerinu sínu og þeir sem vildu ræða einhver vandamál við hann máttu senda honum sms og spjalla við hann í 100% trúnaði. Ég ákvað að prufa það og eftir að hafa hitt hann einu sinni spjallað við hann í smástund og látið hann lofa að kjafta ekki fór ég heim.

 

Það var búið að hringja frá skólanum þegar ég kom heim. Ég var send í eitthvað persónuleikapróf þar sem ég átti að svara mjög persónulegum spurningum um hugsanir mínar og allt var þetta að sjálfsögðu í 100% trúnaði og enginn sæi svörin nema sálfræðingurinn.

Ég veit síðan ekki af því fyrr en ég er kölluð út úr tíma í skólanum og bent á herbergi þar sem mamma, félagsráðgjafinn svali og félagsmálafulltrúi bæjarins sitja og svör mín úr persónuleikaprófinu voru lesin upp í allra áheyrn.

 

Þarna hætti ég að reyna. Fannst og finnst svo sem enn að ég hafi verið illa svikin af skólayfirvöldum og öllu þessu kerfi. Ég fór að rifja upp hversu oft ég hafði verið kölluð á skrifstofu skólastjórans þegar var ráðist á mig á skólalóðinni og ég látin réttlæta það, beðin um að útskýra hvað ég hefði gert til að ögra þeim.

Ég var alltaf höfðinu lægri en þessir krakkar og er ennþá lágvaxin í dag og finnst þessvegna hálf asnalegt að ég hafi átt að geta staðið í slagsmálum við marga krakka í einu!

 

Ég get ekki neitað því að ég hugsaði stundum um að það væri örugglega til auðveldari leið, en ég sagði engum frá því að ég pældi í því ekki einu sinni sálfræðingnum því ég vissi að þá yrði allt vitlaust. Ég var meira að segja búin að ákveða hvernig ég ætlaði að fara og velja staðinn.

 

Ef ég ætti ekki 3 yngir systkin þá hefði ég gert það. Ég hugsaði alltaf þannig að ég gæti ekki yfirgefið þau, sérstaklega ekki bróður minn sem er árinu yngri, ég kom honum í þetta ég varð að reyna að redda þessu einhvern veginn. En ég get ekki neitað því að ég stóð oft á þessum ákveðna stað og kallaði sjálfa mig gungu!

 

Í dag eru næstum 5 ár frá því ég kláraði grunnskólann og ég bý rétt hjá þessum litla bæ og mikið af fólkinu frá æskubæ mínum flytur hingað. fæ enn skjálfta í hnéin og þurrk í munninn þegar ég mæti gömlum bekkjarsystkinum mínum.

Ég hef skrópað á "reunionum" og sleppi því að heilsa þeim á götum úti sannfærð um að þau séu að horfa á mig og glotta. Það hefur komið fyrir að þau hafa baktalað mig við vini mína sem ég eignaðist eftir framhaldsskólann.

 

Fæstir vinir mínir vita hvernig æska mín var. Það er það allra fáránlegasta við þetta að maður skammast sín ennþá.

Og það versta er að foreldrum eineltis barna líður einsog þau hafi brugðist börnunum sínum en okkur líður einsog við höfum brugðist ykkur og öllum þeim vonum og væntingum sem þið hafið til okkar.

Ég man ennþá eftir þeim skiptum sem mamma sagði "viltu ekki fara út og leika þér við krakkana, það er svo gott veður"  og ég laug því til að ég nennti ekki eða að mér væri illt í maganum því ég vildi ekki segja henni satt og þegar ég fékk stöðumat úr skólanum og þar stóð að ég gæti ekki unnið í hóp og ég sagðist bara hafa lent í hópavinnu með krökkum sem nenntu ekki að læra.

Og hversu oft ég kom heim úr skólanum vegna þess  "að mér leið einsog ég væri að verða eitthvað lasin"

 

Mig langar ótrúlega mikið til að hjálpa og láta sögu mína komast til skila en þar sem mér finnst ég oft á tíðum lítil og hjálparvana veit ég eiginlega ekki hvað ég get gert. Saga Lárusar vakti mig á einhvern hátt og ég vil gera eitthvað til að bjarga sálum áður en þeim er rústað.

Með samúð og virðingu fyrir því sem þú ert að gera ætla ég að enda þetta bréf

23 ára og var í skóla á höfuðborgarsvæðinu

Kæru lesendur.

Sjálfsvíg Lárusar (sumarið 2008) og umfjöllunin sem það fékk veitti mér innblástur til að láta loks verða af því að senda þetta út. Það sem hélt aftur af mér hingað til var skömm, kvíði um að fólk myndi óttast mig, og efi um að þetta myndi hafa einhver áhrif. Íslendingar virðast svo uppteknir af hinu botnlausa og innantóma neyslukapphlaupi við hvort annað að ég hélt að enginn myndi líta upp til að hugsa um eitthvað sem skiptir máli... um alvarleg gömul vandamál sem liggja enn óleyst.

Einelti gerði mig næstum að fjöldamorðingja... það er ástæðan fyrir að ég skrifa nafnlaust. Upphaflega skrifaði ég eitthvað ekki eins gróft sem ég taldi mig geta gefið út undir nafni, og áherslan var á að segja sögu eineltisins, sem sagt segja frá völdum atvikum í tímaröð. En þegar ég leit yfir það ritverk fannst mér það varla segja 1% af sögunni. Þannig að ég ákvað að reyna í staðinn að útlista áhrifin sem einelti getur haft. Einelti er MIKLU meira en bara röð atvika, og það er ómögulegt fyrir þann sem hefur aldrei lent í einelti sjálfur að skilja það til fulls. En með því að lýsa endastöðinni -hversu djúpt ég sökk á endanum- þá get ég kannski gefið hugmynd um hversu hryllilegt ferðalagið var.

Ég ætla að tala um tvær megin spurningar. Annars vegar um eðli eineltis, og hins vegar um hvernig andlegt ofbeldi og andlegir örðugleikar sem fylgja því eru ekki tekin alvarlega og af hverju. Til að byrja með, hvað er einelti? Þetta er flókin spurning. Til að byrja með er einelti ekki nýtt vandamál og það er ekki bundið við ákveðið land. Einelti er dæmi um hvernig mannskepnan getur stundum misst sitt góða eðli í stórum hópum. Það getur gerst hvar og hvenær sem er, og getur vaxið og myndað eins konar nasistamenningu þar sem einn eða fleiri krakkar verða minna en mennskir í augum hinna og pyntingarnar sem fórnarlömbin þola verður daglegt brauð og sjálfsagður hlutur.

Einelti er stöðugt ástand, eitthvað sem umbreytir félagslegum umheimi barnsins gjörsamlega. Það brýtur barnið niður með tímanum og smám saman fer persónuleiki þess að breytast. Það fer að hætta að geta gert hluti út af stöðugu stressi, jafnvel einfalda hluti eins og að tala. Þessi sífelldu klúður valda síðan enn meiri skömmum og háði og barninu finnst það eiga þau skilið. Smám saman verður barnið heilaþvegið um að það sé ömurlegt að öllu leiti, gallað mannsorp af lægstu sort.

Þetta veldur síðan breytingum á því hvernig barnið skynjar heiminn. Allt verður skilið á sem verstan hátt, jafnvel þó slæma merkingin sé langsótt. Ef fólk hlær nálægt barninu finnst því að það sé verið að hlæja að sér. Barnið er orðið svo vant því að fá ekkert nema illt frá fólki að það fer að sjá óvini í hverju horni. Jafnvel alvöru hrós komast ekki í gegn, barnið er orðið vant því að hrós séu einungis notuð í kaldhæðni eða grimmdarlegu háði, og mun skilja öll hrós þannig. Ef barnið sér hrósandann alls ekki sem óvinveitta manneskju þá er hrósið skilið sem ekkert nema hvít lygi sögð í vorkunn. Barninu finnst eins og allir annaðhvort hati sig eða aumki sig yfir sig og þegar skemmdirnar eru komnar á hátt stig láta öll
hrós því líða illa.


Mér er sérstaklega minnisstætt eitt atvik þegar ég var á fótboltaæfingu, og vingjarnlegur strákur var að skjóta á mig (ég æfði sem markmaður). Hann sagði nokkrum sinnum eitthvað á þessa leið "Vel gert!" og endurtók þessa ánægju sína með frammistöðu mína nokkrum sinnum í röð og með meiri ákafa. Mér leið sífellt verr því ég var nokkuð viss um að hann væri að gera grín að mér. Þegar hann hrósaði mér hátt og með mjög mikilli áherslu í lokin gat ég ekki meira, "snappaði" á hann og gelti í leiðinlegum tón "þegiðu!" ...

...   hann varð skiljanlega *mjög* fúll og þrátt fyrir að ég hafi útskýrt að ég hafi haldið að hann væri að gera grín að mér þá líkaði honum aldrei við mig eftir þetta.
Þetta eru augljóslega alvarlegar skemmdir á hug og persónuleika viðkomandi, og afleiðingarnar eru það líka. Hversu alvarlegar fer eftir hversu mikið eineltið náði að skemma, allt frá því að fórnarlambið verði "bara" brennt af þessu í 5-10 ár, upp í afleiðingar eins og að verða varanlegur þunglyndissjúklingur, alvarlega félagsfælin(n), leita sér lausna í dópi eða sjálfsmorði, eða jafnvel að hata samfélagið í heild og verða glæpamaður eða leyta sér hefnda... Það eru ótal möguleikar en það má ekki einblína bara á öfgana. Skemmdir sem verða á hug barns geta varað mörg ár eftir að eineltinu lýkur og þær eru kvalarfullar og skemma möguleika í lífinu t.d. í námi, starfi, samböndum eða ræktun hæfileika. Þetta hlýtur að teljast grafalvarlegt mál.           

Ég er hikandi í orðavali um andlega örðugleika hér. Þetta er allt svo misskilið eitthvað og fullt af leynd og skömm. Í núverandi menningu okkar virðist fólk t.d. halda að öll orð fyrir "andleg veikindi"  þýði eitthvað varanlegt sem maður annaðhvort fæðist með eða "fær" bara allt í einu eins og krabbamein, einhverskonar "vélbúnaðarvandamál". Og ef því er ekki að skipta þá hlýtur þetta að vera einhver aumingjaskapur. Það vantar algjörlega að taka tillit til áhrifanna sem þjáningar geta haft á hugann, og að allir hafa sinn "breaking point". Ofan á það vantar svo tillit til þess að börn eru mun viðkvæmari og áhrifagjarnari heldur en fullorðir. Mig grunar líka að fólk viti almennt ekki að tíminn læknar EKKI öll sár þegar kemur að andlegum vandamálum. Það krefst mikillar vinnu yfir mörg ár af hálfu fórnarlambsins að lækna hug sinn... og það er bara ef viðkomandi sér til að byrja með að hugur sinn er veikur og veit hvernig á að nálgast það vandamál. Það er nefninlega erfitt að "sjá" hugann. Við búum í hug okkar... nei, við ERUM hugur okkar og það er erfitt að hafa yfirsýn með þessu. Soldið eins og að biðja mús í háu grasi að segja manni hvernig engið lítur út.

Vandamálið með skemmdir á huganum af hálfu eineltis er að þær breyta því hvernig fórnarlambið hugsar. Það verður svo vant því að efast stöðugt um sjálfa(n) sig til að reyna að forðast árásir, að það myndast einskonar innri rödd sem tekur við af gerendunum og heldur áfram að plaga löngu eftir að eineltinu lýkur. Hugsanir sjálfshaturs og sjálfsgagnrýni er eitthvað sem fórnarlambið þarf að glíma við fyrstu árin eftir að losna úr einelti, en það er kaldhæðnislegt að verri líðan skuli koma eftir að ástand fórnarlambsins lagast eitthvað.

Eftir að fórnarlambinu tekst að endurheimta einhverskonar sjálfsmynd, þá fer ömurleikinn, sjálfsgagnrýnin og sorgin að breytast í reiði. Þegar fórnarlambið loksins sér að það átti ekki eineltið skilið, auðvitað tekur þá reiði við. "Hvernig gátu þau gert mér þetta?" spurði ég sjálfan mig... "Hafa þau enga SAMVISKU?". Og þá kom hatrið. Hatrið er verst af öllu... mér líður ömurlega bara að rifja þetta upp. Hatrið át mig að innan, eitraði og brenndi sálina. Ég fékk köst og lá stundum andvaka uppi í rúmi, svitnandi af hreinni reiði, réttlátri reiði. "Hvernig gat þetta helvítis fólk GERT mér þetta?" hugsaði ég. "Hvernig gátu þau haldið áfram, og áfram, og ÁFRAM eftir að þau sáu hvað mér leið illa út af þessu?".

Eina niðurstaðan sem ég gat fundið þá var að þetta væru gjörsamlega siðlausar, illar manneskjur sem væri best að fjarlægja af þessarri jörð. Þannig væri ég að hjálpa bæði heiminum í dag, og í framtíðinni með því að koma í veg fyrir að þau gætu alið upp illa innrætt börn sem myndu leggja annað saklaust fólk í einelti. Og fyrir utan að hjálpa heiminum, þá myndi ég ná fram einhverju réttlæti fyrir að líf mitt og möguleikar voru eyðilögð strax í barnæsku (þarna óraði mig ekki fyrir batanum sem ég myndi geta náð með árunum, og hélt að einmanalegt og ömurlegt líf biði mín).

Ég ætlaði að ræna helstu höfuðpaurunum í eineltinu (3 strákar og 2 stelpur) og fara með þau í yfirgefinn kofa úti í óbyggðum og beita þau hræðilegum pyntingaraðferðum (sem ég vil aldrei lýsa fyrir nokkurri manneskju) og halda þeim nær dauða en lífi í marga daga áður en ég loks dræpi þau... og mér fannst þau SAMT vera að sleppa mjög vel miðað við það sem þau gerðu mér. Eftirá ætlaði ég síðan að fremja sjálfsmorð. Ég var í togstreytu í nokkur ár um hvort ég ætti að gera þetta, og hélt þessu leyndu frá öllum til öryggis, því að segja frá myndi skemma möguleikann á að gera þetta.

Í dag veit ég að þetta fólk (þó þau væru orðið 15-16 ára í lok eineltisins) vissi ekki almennilega hvað þau voru að gera, og þess vegna get ég fyrirgefið því. Þau vissu ekki almennilega hvað þau voru að gera mér og hvað það myndi kosta mig í framtíðinni. Það sem var áður í augum mínum óhugsandi, hrein illska sé ég nú sem heimskulega grimmd til að fá útrás fyrir eigin vandamál og/eða reyna að öðlast stöðu í skólamenningunni. Og það er slæm menning.

Ég gæti skrifað mikið um það eitt og sér, en í stuttu máli sagt þá finnst mér margt líkt með fangelsismenningu og grunnskólamenningu. Þetta eru staðir sem þú ræður engu um að vera á. Það eru klíkur, það er staða og virðingarröð. Þú þarft að hafa þig hægan og passa þig að skera þig ekki úr hópnum. Fólk vinnur sér inn stöðu og virðingu á ýmsan hátt en margir uppgötva að auðveldasta leiðin er að beita ofbeldi og ótta. Ef einhver kjaftar í yfirvaldið fær sá hinn sami alvarlegar refsingar.

Þannig að, það komast nokkrir einstaklingar (stundum frá slæmum heimilum, ekki alltaf) upp með að skapa ekki bara vanlíðan fyrir fórnarlömbin heldur líka skólaumhverfi sem er gegnsýrt ótta og engum leyfist að vera öðruvísi. Fórnarlamb getur verið valið út af ýmsu: Bráðþroska, góðum einkunnum, sérstöku útliti (góðu eða slæmu), öðruvísi fötum, öðruvísi talsmáta, o.s.frm... fyrir að gera eitthvað sem gerandinn skynjaði sem ógn eða vanvirðingu við hertogastöðu sína í skólamenningunni, eða bara fyrir hreina óheppni.

En eftir það er fórnarlambið merkt. Það hefur verið merkt sem skotmark og þaðan geta hlutirnir bara orðið verri. Sérstaklega í mínu tilfelli, en ég var mjög kristinn sem barn og vildi aldrei lemja á móti. Þannig að ég varð merktur sem "ókeypis" skotmark.

Það er vert að minnast á að þrátt fyrir að ég lamdi aldrei á móti meðhöndluðu skólayfirvöld alltaf árásir á mig sem einföld slagsmál... og í staðinn fyrir að forðast að draga athygli að mér ef ég leitaði hjálpar, hóuðu yfirvöldin í gerandann inn á skrifsstofu og létu okkur segja "fyrirgefðu" við hvorn annan og takast í hendur. Þetta olli því að sjálfssögðu að ég lenti strax í annarri líkamsárás. Auk þess er vert að minnast á að skólastjórinn var lygalaupur.

Í hvert skipti sem mamma mætti með áverkavottorð frá lækni talaði hann digurbarkalega um að svona myndi ekki líðast, en hann gerði aldrei neitt. Hún segir mér að enginn hafi nokkurntíman tekið andlega ofbeldið alvarlega þrátt fyrir að hún benti þeim á áhrifin sem það var að hafa á mig. Þannig að hún einbeitti sér að því að kvarta yfir líkamsmeiðingunum.Hún reyndi og reyndi og var send fram og til baka í kerfinu, milli skólastjóra, skólaskrifstofu, félagsmálastofnunar og lögreglu en án árangurs.

Öllum virtist finnast hendur þeirra bundnar og vísuðu málinu hver á annan. Svona gekk þetta í nokkur ár og eineltið sem ég var að lenda í plús gagnsleysi baráttu hennar var að valda henni miklum þjáningum. Dag einn þegar einn höfuðpauranna hafði eina ferðina enn safnað liði og gengið í skrokk á mér, þá gat hún ekki meir. Hún stormaði inn á skrifsstofu skólastjórans og sagði að hún færi ekki fet fyrr en hann væri búinn að hringja á lögregluna. Hann maldaði í móinn og þá tók hún símann og hringdi sjálf. Þegar lögreglubíll mætti niður í skólann fóru barsmíðarnar loksins að hætta. Það er undarlegt að hugsa til þess að líkamsárásir skulu ekki vera taldar alvarlegt mál þegar börn eiga í hlut, en svona var íslenska skólakerfið árið 2000 og ég heyri að það sé enn svona í dag.

En víkjum aftur að því hvernig skemmdirnar geta versnað og eðli þeirra breyst með tímanum. Skoðum morð í skólum víðsvegar um heiminn. Ég fann því miður ekki tölur um skólamorð yfirhöfuð, bara þau sem voru framin með byssum. 63 um heim allan eftir árið '85, þ.á.m. 20 annars staðar en í USA (þ.á.m. 1 í Danmörku, 2 í Finnlandi og 3 í Þýskalandi). Ég hef kynnt mér mörg þessarra skólamorða, og þau eru oftast í einhvers konar framhaldsskóla (sem sagt aldur 14-20). Oft kom fram að morðinginn var lagður í einelti... en nær alltaf var vanrækt að kanna hvort morðinginn hafi orðið fyrir einelti í fyrri skóla (fólk er oftast upptekið við að kenna bíómyndum/tölvuleikjum/þungarokki um eða rífast um byssulög).

Ég held að mörg skólamorð gætu verið dæmi um að eftir grunnskóla og að losna úr einelti þar hafi sorg og brotin sjálfsmynd breyst í reiði og hatur... og þetta hatur getur auðveldlega flust yfir á aðra sem gera manni illt. Ég skammast mín mikið fyrir að viðurkenna það, en það var einn strákur í framhaldsskóla sem gerði ekki mikið meira af sér heldur en líka illa við mig og tjá þá skoðun oft og hrokafullt og í návist annarra. Ég hataði þennan strák ÓTRÚLEGA mikið á tímabili og mér fannst hann vera að beita sér fyrir því að öðrum líkaði illa við mig líka.

Ég gerði plön um að búa til eldsprengju og kasta henni inn um gluggann hjá honum meðan hann svæfi. Það var mikil togstreyta um þetta líka... en á tímabili gekk þessi gaur svo fram af mér að ég fór og keypti stóra flösku af rauðspritti til að nota í eldsprengjuna. Eftir á skammaðist ég mín fyrir það að hluta til... en þar sem ég vissi að ofurhatrið kom í bylgjum þá óttaðist ég að einn daginn myndi ég láta verða af þessu. Eins og ég sagði, þetta var togstreyta.

Þegar ég les um skólamorðingja og þeirra bakgrunn og les skilaboðin sem þeir skildu eftir sig til að útskýra það sem þeir gerðu þá sé ég óhugnarlega margt líkt með þeim og mér þegar mér leið hvað verst. Í nær öllum tilfellum voru morðin vandlega íhuguð með miklum fyrirvara (morðinginn "snappaði" nær aldrei). Og mjög oft litu þeir á sig sem hálfgerða píslarvætti, að bæta heiminn með gjörðum sínum. Ég vil líka minnast á að með aukinni umfjöllun eru skólamorðingjar farnir að hafa innblástur af fyrri skólamorðingjum.

Mörg skólamorð, sem og plön um skólamorð sem tókst að stöðva, minnast á Columbine sem innblástur og tala um morðingjana tvo sem píslarvætti, en morðingjarnir þar voru einmitt að hefna eineltis áður en þeir frömdu sjálfsmorð. Til dæmis skólamorð í Finnlandi árið 2007 þar sem morðinginn talaði um innblástur frá Columbine. Svo voru 2 drengir í Svíþjóð sem sáu innblástur í því sem gerðist í Finnlandi, en þeirra morð tókst reyndar að stoppa. Ég sjálfur fékk meira að segja nokkurskonar innblástur.

Ég man þegar ég var í matarboði hjá ömmu og afa, og sá í sjónvarpinu umfjöllun um strák að nafni Barry Loukaitis í USA. Hann var lagður í hrottalegt einelti og endaði á því að mæta vopnaður í skólann árið '96 og drepa nokkra sem hann hataði. "Gott hjá honum" hugsaði partur af mér þá, og ég gnísti tönnum af reiði þegar ég sá viðtal við einhvern hátt settann sem var spurður hvort einelti væri vandamál sem ætti að fara að skoða. Hann svaraði: "No I think it´s normal for kids like [nafn eins stráks sem var drepinn] to tease the weird ducks".

Andlegt ofbeldi og andlegur skaði er eins og ég hef sagt, gróflega vanmetið. Andlegi parturinn er þó svona um það bil milljón sinnum verri ef við miðum við yfir lengri tíma. Sár gróa fljótt, og af sjálfu sér... ólíkt skemmdunum á hug barnsins sem gera það félagslega fatlað, sem síðan leiðir af sér ennþá meira einelti (jafnvel í öðrum skóla). Auðvitað er líkamlega ofbeldið alvarlegt mál líka, en það segir þó helling að þegar eineltið stóð sem hæst þá var ég orðinn ónæmur fyrir barsmíðum en meiðandi orð og félagsleg niðurlæging (sérstaklega af hálfu tveggja áhrifamikilla stelpna í bekknum mínum) var eitthvað sem ég óttaðist eins og heitan eldinn.

"Sticks and stones may break my bones, but words will never hurt me" eru kokhraust orð, en börn eru bara allt annar handleggur! Sjálfsmynd barna er svo ótrúlega viðkvæm og mótanleg að hverjum sem veit það hlýtur að finnast grátlegt hvernig er farið með þau í skólum ennþá í dag. Skemmdirnar geta verið ævilangar,  kostað barnið mörg ár af ævi sinni, eða verið banvænar.

Nú hef ég minnst á öfgana og ofuröfgana, en hitt er heldur ekkert grín. Hvað með allt fólkið sem átti slæma æsku út af grimmri skólamenningu? Hvað með einhvern sem er glaður og virkur krakki en endar sem neikvæður eða bældur haugur sem á enga hamingju í lífinu? Hver veit nema rekja megi óhamingju og sjálfsmorð margra fullorðinna aftur til eineltis. Ég vitna í greinina um einelti og sjálfsmorð Lárusar úr Mannlífi, ágúst 2008, og minni á að á tímabilinu 2000-2006 létust 181 í umferðinni en aftur á móti 240 í sjálfsmorði. Og það er bara á þessu pínulitla landi okkar.

Það er hægt að jafna sig á alvarlegu einelti, en ég held að ég sé undantekningin frekar en reglan. Ég held að ég hafi bara verið heppinn að hafa rekist á hugmyndina og aðferðafræðina um að endurþjálfa hugann. Ég held að ég væri annaðhvort dauður eða mjög bældur og óhamingjusamur enn í dag ef ég hefði ekki rambað á ákveðna bók um þjálfun hugans á viðkvæmasta tímabilinu, og þar með komið mér út á þessa braut og út í að leita mér frekari upplýsinga bæði í sálfræði og heimsspeki. Ég held að ég hafi verið heppinn, og að flestir sem lendi í svona hremmingum haldi áfram að sjá allt gegnum skemmdan hug sinn... sjái heiminn, annað fólk og sig sjálf svartsýnum augum frekar en að sjá að það er eitthvað að þeirra eigin hugarstarfssemi.

Ég vona innilega að þessi skrif mín skili einhverjum árangri. Mér er búið að líða mjög illa við að rifja þetta allt upp og skrifa þetta. Togstreitan þegar mér leið hvað verst, um hvort ég ætti að drepa gerendurna var versta óhamingja sem ég hef upplifað, vegna þessarra illu hugsana gat ég ekki lengur litið á mig sem góða manneskju.

En hvað er hægt að gera? Til að byrja með á auðvitað að taka þetta alvarlega. Það ætti að vera löngu búið að taka upp Olweus áætlunina í öllum skólum á landinu og taka opinbera stöðu um að eitt einasta tilfelli eineltis muni ekki líðast. Mér þykir ömurlegt að heyra fólk segja að Ísland sé þó a.m.k. með lægsta hlutfall eineltis á norðurlöndum. Þetta er eins og að afsaka Auschwitz búðir hér á landi með því að benda á að þær séu hlutfallslega færri en í nágrannalöndum.

Mér finnst þessi síða útskýra vel breytingarnar sem þarf að taka upp í skólum:

www.skodun.is/2005/04/13/tiundi-hver-nemandi-lagdur-i-einelti  

... ég hef litlu við þetta að bæta, nema mér finnst að það eigi að passa að siðgæði og náungakærleikur verði ekki kennd út frá kristni. Ef foreldrarnir eru ekki virkir iðkendur kristni finnst krökkunum að þetta eigi ekki við um sig. Það þarf að kenna að siðgæði og náungakærleikur skipta máli og standa á eigin fótum, og séu ekki bundin neinum ákveðnum trúarbrögðum.

Ég held að stjórnmálamenn eigi aldrei eftir að gera neitt ef þeir komast hjá því. Þess vegna vil ég biðja fólk að PRESSA á stjórnvöld. Ef það gerist eigið þið mínar þakkir, sem og þakkir krakkanna sem eru að fara að byrja í grunnskóla og þið björguðuð frá algjörum hryllingi.

Ég tileinka þessi skrif minningu Lárusar Stefáns Þráinssonar. Allra bestu óskir frá mér og mínum til þeirra sem hann skilur eftir sig.

Ég er 23 ára og að ég var í skóla á höfuðborgarsvæðinu

P.s. 

Það voru margir sem létu í ljós skoðun sína á einelti í umræðu eftir birtingu þessarar greinar í Morgunblaðinu. Þeir sem vilja lesa viðbrögð bloggheimsins við fréttinni geta séð þau til hægri á mbl.is færslunni um greinina

Þessa umræðu má sjá hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/27/aetladi_ad_pynta_thau_og_drepa/

Saga Gunnars

Ég var að lesa reynslusögurnar á vefsíðunni ykkar og langaði að deila með ykkur minni.

 

Sagan mín byrjar í Reykjavík 1993, þar sem ég 7 ára og er nýfluttur í eitt af úthverfum Reykjavíkur. Ég byrja í nýjum skóla og reyndi að láta mig lynda við krakkana þar.

Ég kynntist nokkrum krökkum sem voru með mér í bekk og fleiri krökkum í gegnum þá.

 

Ég var fljótlega tekinn fyrir í skólanum og mér var strítt, kannski lítið til að byrja með, en þegar það magnaðist upp og ætlaði aldrei að hætta.

Krakkarnir sem ég hafði kynnst fóru fljótlega að spila með hinum krökkunum því ekki vildu þeir að þeim yrði strítt líka eins og mér.

Fljótlega átti ég enga vini, satt uppi einn og hafði engan stuðning. Ég þorði ekki að segja kennurum eða foreldrum mínum frá þessu því ég hélt alltaf að þetta myndi bara lagast.

Árin liðu og eineltið fór versnandi. Andlegt og líkamlegt ofbeldi urðu ágengari jafnframt innan skóla sem utan.

Ég þorði varla út fyrir hús án þess að eiga þá hættu við að vera laminn. Ég fékk viðurnefnið Gúllas og var ég betur þekktur undir því heldur en mínu raunverulega nafni.

Ég var farinn að líta við þegar ég heyrði hrópað Gúllas! Því ég var alveg hættur að heyra mitt raunverulega nafn. 

 

Verst fannst mér þegar foreldrar mínir báðu mig um að labba út í búð fyrir sig og kaupa eitthvað, þá gat ég eiginlega ekki komist hjá því að fara en ég þorði ekki að segja þeim hvernig væri komið fyrir mér.

Á leiðinni sá maður yngri krakkana á leikvellinum sem var staðsettur hjá búðinni. Þeir horfðu á mann þegar maður gekk hjá búðinni og þá tók maður sprettinn. Þeir hlupu á eftir mér og eina sem ég hugsaði var það að hve skyldu þeir berja mig illa í þetta skiptið. Stundum náði ég því að komast inn í búðina áður  en þeir náðu mér, en það var bara léttir þangað til að ég þurfti að fara út úr búðinni.

Þegar maður kom út þá Þeir drógu mann eftir götunni, kýldu mann, tóku vörurnar sem maður var að kaupa og eyðilögðu þær. Síðan eltu þeir mig og börðu þangað til að ég náði að komast inn í anddyrið á blokkinni sem ég bjó í. Foreldrar mínir spurðu mig hvar vörurnar væru og fór ég að afsaka mig að ég hafi annaðhvort týnt peningnum, dottið og eyðilagt þær og svo framvegis.

Svona gekk þetta í mörg ár og eru sögurnar misjafnar eins og hvað dagarnir eru margir.

 

Þegar ég hafi verið um 11 – 12 ára gamall þá voru sjálfsmorðshugmyndir orðnar daglegt brauð.

Mig langaði bara að fá að deyja, þurfa ekki á hverjum degi að vakna upp og sjá allan viðbjóðinn fyrir framan mig sem var ég! 

Ég var farinn að þrá það að mæta með haglabyssu í skólann og bara láta vaða. Mig langaði bara að drepa þetta fólk sem fyrir mér var.  Ég var orðinn verulega þunglyndur og vissi ekki oft á tímum hvað snéri upp eða hvað niður.

Ég var farinn að trúa því að þetta væri bara allt mér að kenna, hvernig fyrir mér var komið.

Mér fannst ég vera aumingi, vonlaus hálviti sem átti ekki skilið að fá að lifa góðu lífi. Ég fór að haga mér eins og ég hélt að aðrir myndu líka vel við mig hverju sinni, gat aldrei verið ég sjálfur eða látið í ljós mínar skoðanir.

 

Ég leitaði aðstoðar hjá skólastjóra og námsráðgjafa og sagði þeim svona hluta af sögu minni, því ég skammaðist mín svakalega hvernig fyrir mér var komið.  Ég var boðaður í ótal viðtöl með kennurum, skólastjóranum og námsráðgjafa. Niðurstaðan sem ég fékk var að þeir ætluðu að tala við krakkana sem voru að stríða mér og segja þeim að hætta því...

Niðurstaðan var samt önnur hjá krökkunum. Ég fékk aldeilis að vita það hverskonar klöguskjóða ég væri og ætti bara skilið að vera laminn ennþá meira út af því. 

 

Einn daginn brotnaði ég gjörsamlega og sagði foreldrum mínum hvað gerst hafi í öll þessi ár.

Í kjölfarið fór ég í annan skóla sem var í öðru hverfi.

Ég held að ég hafi verið þar í 3 daga þegar ég heyri hrópað Gúllas!

Ég hugsaði með mér ,, ó nei, hérna byrjar þetta" og síðan var ég laminn.

Þarna kynntist ég samt krökkum sem ég gat talað við og verið ég sjálfur þrátt fyrir að einhverir voru að stríða mér.

Ég gat ekki hleypt neinum að mér eða kallað einhvern vin minn, heldur bara kunningja.

Ég var orðinn fatlaður í því að geta eignast vini. Ég gat engum treyst hvort að einhver  vildi vera vinur minn eða þá bara stinga mig í bakið.

 

Um 17 ára aldur þá byrja ég í fíkniefnaneyslu.

Þarna var þetta sem ég hafði þráð svo lengi. ÞÖGN

Hausinn á mér þagnaði þannig að ég gat funkerað í eðlilegu samfélagi.

Allt þetta slæma hvarf þegar ég var undir áhrifum og fannst mér að lífið ætti alltaf að vera svona.

Reynslan er samt önnur.

Ég var í dagneyslu  í 2 ½ ár þangað til að ég fór í meðferð.

Lífið var öðruvísi erfitt og leiðinlegt.  Þegar maður var farinn frá fjölskyldunni, búinn að klúðra skóla, vinnu og allt það sem mikilvægasta er i lífinu  þá er ekki mikið eftir.

 

Í dag er ég 22 ára og er búinn að vera edrú í 2 ár.

Hjálpin sem ég hef fengið að komast í gegnum þetta er mjög bundin í 12 sporum AA samtakanna.

Ég lærði þar að það er ekki hægt að byggja ofaná eitthvað sem er mulið nú þegar. Það þarf að vinna úr öllum sínum vandamálum áður en eitthvað sé reist að nýju.

Í dag á ég vini og fullt af kunningjum.

Ég á samt ennþá erfitt með að treysta fólki og hleypa því að mér.

Þessi reynsla skilur eftir sig djúpan skurð sem aldrei á eftir að gróa að fullu.

miđvikudagur 19 desember 12 2018
Nýjustu fréttir
http://www.kolbrunbaldurs.is/ Á þessari síðu getur þú og...
Í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags 10. október...
Umboðsmaður barna sendi á mánudaginn, 21. mars 2011, bréf til allra...

Könnunn

Er eineltisáćtlun ţíns skóla ađgengi-og sýnileg?
  • Nei